Á aðalfundi Advania, sem haldinn var fimmtudaginn 25. juní síðastliðinn, var kjörin ný stjórn hjá félaginu. Stjórnarmönnum var fækkað úr fimm í þrjá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Í stjórn sitja nú eftirfarandi:

Thomas Ivarson. Thomas hefur víðtæka alþjóðlega reynslu úr upplýsingatæknigeiranum, bæði innan Norðurlandanna sem utan, og hefur til að mynda gengt stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála samstæðu hjá Logica PLC í London, stöðu forstjóra CMG Wireless Data Solutions BV í Hollandi og stöðu forstjóra EHPT AB (samstarf milli Ericsson og HP) í Svíþjóð. Áður starfaði hann í fimmtán ár hjá Ericsson.

Bengt Engström. Bengt býr yfir yfirgripsmikilli reynslu sem stjórnandi og hefur m.a. víðtæka reynslu af samrunum og yfirtökum bæði á Norðurlöndunum og af Evrópumarkaði. Þá hefur hann gegnt stöðu forstjóra hjá Fujitsu Nordic, Whirlpool Europe og Duni.

Birgitta Stymne Göransson. Birgitta er ráðgjafi og stjórnarmaður í fjölmörgum fyrirtækjum. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum í verslun og iðnaði, og var meðal annars, fjármálastjóri Åhléns, forstjóri Memira Group og Semantix, og framkvæmdastjóri Telefos Group.

Rekstrarhagnaður (EBIDTA) tæplega tveir milljarðar

Ársreikningur félagsins var samþykkur á aðalfundinum. Rekstrarhagnaður Advania samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.968 m. kr. og hækkaði um 31,4% frá fyrra ári. Kostnaður lækkar um 5% á milli ára og framlegðarhlutfall hækkar út 6,5% í 8,9% milli ára.

71 milljóna króna hagnaður er af reglulegri starfsemi.  Að teknu tilliti til afkomu af aflagðri starfsemi og þýðingarmunar vegna eignarhluta í erlendum dótturfélögum (gengisþróunar), er tap á rekstri samstæðu 446 m.kr. Eiginfjárhlutfall er nú 19,6% samanborið við 9,3% í árslok 2013.

„Við erum sæmilega sátt við uppgjörið sem sýnir að við erum á réttri leið.  Eigið fé félagsins styrktist verulega með hlutafjáraukningu og innkomu nýrra eigenda á síðasta ári.  Vaxtakostnaður er þrátt fyrir það enn of hár.  Verkefnið framundan er því áframhaldandi styrking á rekstrinum, hækkun eiginfjárs og lækkun á vaxtaberandi skuldum.“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.