Ný stjórn Ungra athafnakvenna var kjörin á aðalfundi félagsins í byrjun júní. Frá fyrra starfsári sitja áfram þær Andrea Gunnarsdóttir, Elísabet Erlendsdóttir og Helena Rós Sturludóttir. Nýjar bætast við Anna Berglind Jónsdóttir, Ásbjörg Einarsdóttir og Sigyn Jónsdóttir sem einnig tekur við formennsku félagsins af Margréti Berg Sverrisdóttur.

Fyrsti viðburður nýs starfsárs Ungra athafnakvenna verður haldinn þriðjudaginn 5. september í Ráðhúsi Reykjavíkur. Húsið opnar 19:30 og hefst formleg dagskrá kl 20:00. Viðburðurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á starfi félagsins og eftir sem áður fá Ungar athafnakonur til sín framúrskarandi fyrirmyndir og leiðtoga úr íslensku samfélagi, að því er er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Eru það að þessu sinni þær Liv Bergþórsdóttur forstjóri Nova og Claudie Wilson héraðsdómslögmaður sem munu flytja erindi.

Sigyn Jónsdóttir, nýkjörinn formaður UAK, mun opna viðburðinn og kynna dagskrá vetrarins sem er þéttpökkuð fjölbreyttum fyrirlestrum, málstofum, námskeiðum og ýmsum viðburðum sem hvetja félagskonur til dáða, veita þeim innblástur og hjálpa þeim að þróa hæfileika sína.

Ungar athafnakonur vilja stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og bjóðast sömu tækifæri. Markmið félagsins er að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. Hægt er að fá nánari upplýsingar um félagið, viðburði vetrarins og skráningu á vefsíðunni www.uak.is.