*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 5. apríl 2018 08:27

Ný störf halda ekki í við fólksfjölgun

Hlutfall þeirra sem starfa við opinbera þjónustu og eru án vinnu á móti þeim sem vinna í einkageiranum hækkar á ný.

Ritstjórn
Um 156 þúsund manns hér á landi starfa í einkageiranum og hefur hlutfall þeirra á móti öðrum landsmönnum minnkað á ný í fyrsta sinn frá hruni.
Haraldur Guðjónsson

Stuðningsstuðull atvinnulífsins var 1,20 árið 2017 og hækkaði lítillega í fyrsta sinn í níu ár. Um er að ræða mælikvarða sem Viðskiptaráð gefur út en hann sýnir hlutfall starfsfólks í einkageiranum á móti þeim sem starfa við opinbera þjónustu og eru ekki í vinnu til dæmis vegna aldurs eða annarra þátta.

Stuðullinn sýnir að fyrir hverja 10 einstaklinga sem starfandi voru í einkageiranum árið 2017 voru 12 starfandi við opinbera þjónustu eða ekki í vinnu, t.d. vegna aldurs.

Frá aldamótum fór stuðullinn hæst árið 2009, en þá var hann í 1,44 en síðan hefur hann lækkað jafnt og þétt þangað til nú þegar hann hækkaði um 1%. Árið 2013 var hann 1,35 en fyrir hrun fór hann lægst í 1,23 árið 2007, en þá hafði hann farið lækkandi frá hámarki sínu árið 2004 þegar hann var í 1,38.

Tilgangurinn með stuðningsstuðlinum er að sýna hversu margir eru með einum eða öðrum hætti studdir af þeim sem starfa í einkageiranum. Eins og staðan var á síðasta ári eru 156 þúsund manns starfandi í einkageiranum, 38 þúsund í stjórnsýslunni og velferðarkerfinu, 144 þúsund utan vinnumarkaðar, oftast sakir aldurs og loks um 6 þúsund manns atvinnulausir.

Mikil fólksfjölgun en hægari fjölgun starfa

Fordæmalaus fólksfjölgun litar stuðningsstuðulinn talsvert að þessu sinni. Á árinu 2017 (frá ársbyrjun til ársloka) fjölgaði landsmönnum um ríflega 10.000 og voru að meðaltali um 7.900 (+2,4%) fleiri íbúar á landinu heldur en árið 2016.

Að sama skapi fjölgaði störfum en þó talsvert minna eða um 3.350 (+1,8%) sem skýrir hækkun stuðningsstuðulsins. Jákvætt er að 88% af þessum störfum urðu til í einkageiranum en talsverð fjölgun fólks utan vinnumarkaðar (+3,5%) er umhugsunarverð.

Hvers vegna þessi mælikvarði?

Hvorki er átt við að börn og aldraðir séu einhverskonar byrði á þeim sem eru starfandi né að opinberir starfsmenn séu yfirleitt byrði á einkageiranum segir í frétt á vef ráðsins um stuðulinn.

Tilgangur stuðningsstuðulsins, sem Viðskiptaráð birti fyrst árið 2011, er að varpa ljósi á hvernig jafnvægið er milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild. Grundvöllur lífsgæða á Íslandi er öflugt atvinnulíf sem skapar verðmætar vörur og þjónustu.

Til að mynda eru Íslendingar mjög háðir útflutningi og hann verður að nær öllu leyti til í einkageiranum. Án útflutnings væri enginn gjaldeyrir til innflutnings og ekki þarf að fjölyrða um hvaða áhrif það hefði á lífsgæði á Íslandi.

Ef stuðningsstuðullinn hækkar áfram þýðir það að minna er til skiptanna milli landsmanna að óbreyttu. Í ljósi framangreinds telur Viðskiptaráð mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að halda stuðlinum lágum.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim