Framkvæmdastjóri Thorsil segir að fjármögnun fyrirhugaðrar kísilmálverksmiðju í Helguvík langt komna. Stefnt sé að því að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs. Hann segir að staðan hjá United Silicon sé skelfileg og fordæmalaus.

Umhverfisstofnun gaf í febrúar út starfsleyfi fyrir fyrirhugaða kísílmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík. Þann 20. mars var útgáfa starfsleyfisins kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er bygging verksmiðjunnar því í biðstöðu eins og er. Voru það Landvernd, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og íbúar í Reykjanesbæ sem kærðu.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem útgáfa starfsleyfis er kærð því Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands gerðu það líka þegar Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi í lok sumars 2015. Þá tók málsmeðferðin 13 mánuði. Gaf nefndin þá skýringu að uppkvaðning úrskurðar hefði dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefði verið til hennar. Niðurstaðan þá var að útgáfa starfsleyfisins var felld úr gildi vegna formgalla.

29,3 milljarðar

Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, segist vonast til þess málsmeðferðin taki ekki jafnlangan tíma núna og hún gerði þegar fyrst var kært.

„Við erum að gera okkur vonir um að nefndin klári þetta á þremur mánuðum og miðað við það ætti úrskurður að liggja fyrir 20. júní í sumar," segir hann.

Kostnaður við byggingu verksmiðjunnar, heildarfjármögnun verkefnisins, er metin á 275 milljónir dollar, sem í dag eru 29,3 milljarðar króna. Hákon segir fjármögnunin sé mjög langt komin.

„Við teljum okkur vera á góðri leið með hana," segir hann.

Spurður hvenær hann telji að framkvæmdir geti hafist í Helguvík svarar Hákon: „Eftir að við ljúkum fjármögnun þá á eftir að klára verkfræði- og útboðsvinnu þannig við ættum að geta byrjað framkvæmdir í febrúar eða mars á næsta ári."

Hákon segir að staðan hjá United Silicon sé skelfileg.

„Það virðist allt ganga á afturfótunum þarna og auðvitað veldur þetta okkur vandræðum. Það hefur greinilega verið illa staðið að þessu því það er ekki bara eitthvað eitt sem er að koma upp þarna heldur margt. Sérfræðingar í þessum málum úti í heimi hafa verið að senda okkur erindi og spyrja hvort þetta geti verið rétt, að það sé lyktarmengun frá verksmiðjunni. Þetta þekkist ekki í þessum bransa. Þetta er fordæmalaust."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .