*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 14. maí 2019 11:39

Nýbyggingar hækkað um átta prósent

Fermetraverð nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu mælist nú um 600 þúsund krónur.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fermetraverð nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu mælist nú um 600 þúsund krónur og hefur það hækkað um átta prósent á einu ári. Fermetraverð annarra íbúða er að meðaltali um 100 þúsund krónum lægra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs. Þá hefur meðalsölutími nýrra íbúða styst en meðalsölutími annarra íbúða lengist lítillega.

Eðli málsins samkvæmt er langflestum leigusamningum þinglýst í Reykjavík en sé litið til hlutfallslegrar stærðar leigumarkaðar trónir Reykjanesbær á toppnum. Fjöldi þinglýstra leigusamninga þar nemur fjórtán prósentum af íbúðarstokki sveitarfélagsins. Næst á eftir fylgja Akureyri, Akranes, Reykjavík og Hafnarfjörður.

Í skýrslunni er einnig vakin athygli á að aukning er á bilinu milli lægstu vaxtakjara sem bjóðast hjá bönkum annars vegar og lífeyrissjóðum hins vegar. Lífeyrissjóðslán bjóðast nú á breytilegum verðtryggðum vöxtum allt niður í 2,15 prósent en lægstu vextir sem bjóðast á bönkum eru 3,4 prósent. Sé litið tvö ár til baka nam munurinn þá 0,4 prósentustigum en er nú ríflega þrefalt hærri. Bilið í óverðtryggðum lánum er öllu minna. Dregið hefur úr vexti óverðtryggðra lána sem merkja mátti undir lok síðasta árs.

„Einn af þeim þáttum sem útskýra almennt þann mun sem verið hefur á vaxtakjörum þessara ólíku lánveitenda er hinn svonefndi bankaskattur sem settur var á árið 2010 [...]. Sá skattur nær ekki til lífeyrissjóðanna og eykur því aðeins fjármagnskostnað innan bankakerfisins,“ segir í skýrslunni.

Þá er einnig vikið að því að aðflutningur fólks til landsins sé enn mikill en í fyrra fluttust 6.500 fleiri til landsins en frá því. Árið áður stóð talan í átta þúsund. Fara þarf aftur til áranna 2006 og 2007 til að sjá sambærilegar, en þó eilítið lægri, tölur en þau ár voru aðfluttir umfram brottflutta rúmlega fimm þúsund. Á þeim tíma fjölgaði íbúðum á móti hraðar, um fjögur þúsund íbúðir bættust við húsnæðisstofninn ár hvert samanborið við um tvö þúsund síðustu tvö ár.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim