V/H hlutfallið er einn af þeim mælikvörðum sem notaðir eru við verðmat fyrirtækja og gefur ákveðnar vísbendingar um hugarfar markaðarins í þeirra garð. Hærra V/H hlutfall þýðir að markaðsvirði fyrirtækis sé hærra í samræmi við hagnað þess. Hátt V/H hlutfall þýðir því gjarna að fjárfestar telji að hagnaður fyrirtækis eigi eftir að aukast á næstu árum. Það getur einnig þýtt að félagið sé ofmetið, þótt það þurfi alls ekki að vera ef mikil vaxtartækifæri eru til staðar. V/H hlutfallið eitt og sér er því ekki nóg til að verðmeta fyrirtæki en það getur gefið ýmsar vísbendingar.

Nýherji er með langhæsta V/H hlutfallið á íslenskum markaði, eða 37,7. Hlutabréf félagsins hafa tvö­faldast í virði á einu ári á meðan tekjur og hagnaður hafa aukist talsvert minna yfir sama tímabil. Þessa miklu hækkun má líklega fyrst og fremst rekja til dótturfyrirtækisins Tempo, sem virðist hafa gífurleg vaxtartækifæri og hefur vakið bjartsýni á markaði. Ekki er ólíklegt að Nýherji selji Tempo áður en langt um líður. Nýherji var skráður á markað árið 1995 og þá var V/H hlutfallið rúmlega 15.

Tvö af stærstu félögunum á markaði, Marel og Eimskip, eru jafnframt með V/H hlutföll í hærri kantinum. V/H hlutfall Marel er í dag 25 en það var hins vegar mun hærra fyrir nokkrum árum, eða yfir 60. Í dag er það í takt við hlutföll erlendra samkeppnisaðila. Þannig er hlutfall þýska fyrirtækisins GEA um 25,5 og hlutfall JBT Foodtech er 35. Þá er V/H hlutfall Eimskips 25,5 en erfitt er að bera fyrirtækið saman við erlend skipafélög í ljósi þess að flest þeirra hafa annað hvort verið rekin með tapi eða eru ekki skráð á markað. V/H hlutfall Marels var um 11 þegar félagið var skráð á markað árið 1992 en V/H hlutfall Eimskips var tæplega 19 við skráningu félagsins síðla 2012.

Mismunandi hlutföll í sama geira

Athyglisvert er að V/H hlutföllin eiga það til að vera afar mismunandi hjá fyrirtækjum í sömu greinum. Ef litið er á fasteignafélögin er hlutfallið t.a.m. langhæst hjá Reitum, eða 24,1. V/H hlutfall Eikar er tæplega 13 og Regins er 10,6. Hugsanlega má skýra þennan mun að einhverju leyti með þeirri staðreynd að hagnaður Reita árið 2016 var talsvert minni en hagnaður ársins 2015, sem hafði lækkandi áhrif á V/H hlutfallið. Hlutabréfaverðið lækkaði ekki í samræmi við minni hagnað. Í samanburði við erlend félög er V/H hlutfall Reita í hærri kantinum en hinna fasteignafélaganna í lægri kantinum. Stærsta fasteignafélag heims, CBRE, er með V/H hlutfall 19,2 á meðan fasteignarrisinn Colliers, sem hefur haslað sér völl víða í Skandinavíu, er með V/H hlutfallið 27,2.

Þegar horft er til tryggingafélaganna er VÍS með langhæsta V/H hlutfallið, eða 15,9. Næst kemur Sjóvá með V/H hlutfall 8,1 og hlutfallið hjá TM er 6,1. Líkt og í tilfelli Reita, sem var með mun hærra V/H hlutfall en hin fasteignafélögin, dróst hagnaður VÍS umtalsvert saman á milli ára. Að sama skapi 4,5-faldaðist hagnaður Sjóvár á milli ára. Þó svo að bréf félagsins hafi hækkað í verði hefur hækkunin ekki nærri því haldist í hendur við aukinn hagnað. V/H hlutföll tveggja af stærri tryggingarfélögum Norðurlandanna, Gjensidige í Noregi og Tryg í Danmörku, eru um 15 og eru hlutföll Sjóvár og TM mjög lág í þeim samanburði en hlutfall VÍS svipað. V/H hlutfall AXA, stærsta tryggingarfélags heims, er um 10.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .