Arion banki hefur samið við Nýherja um útvistun á rekstri upplýsingatæknikerfa bankans. Nýherji mun því sinna rekstri allra miðlægra innviða og kerfa og sinna almennri tækni- og vettvangsþjónustu gagnvart starfsfólki Arion banka. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Starfsfólki Arion banka sem sinnti slíkri þjónustu hefur öllu verið boðið starf innan Nýherja og hafa flestir þegið það – á þriðja tug þeirra mun hefja störf hjá Nýherja nú í byrjun janúar. Áfram starfa um 80 manns á upplýsingatæknisviði Arion banka m.a. við þróun stafrænnar þjónustu bankans og tæknistjórn,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, að þau hjá Nýherja séu sérlega ánægð með það traust sem að Arion banki hafi sýnt þeim. „Nýherji hefur áralanga reynslu af rekstri og þjónustu á upplýsingatæknilausnum fyrir fyrirtæki og við trúum því að okkar þekking á þessu sviði muni styrkja Arion banka enn frekar. Þá býð ég öfluga starfsmenn frá Arion banka sérstaklega velkomna í hópinn,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja.

„Við teljum rétt að útvista rekstri upplýsingatæknikerfa bankans til sérfræðinga sem hafa áralanga reynslu af slíkum rekstri fyrir atvinnulífið. Við höfum um árabil átt gott samstarf við starfsfólk Nýherja og það er ánægjulegt að stíga þetta skref með þeim inn í framtíðina. Það felast mikil tækifæri í þessu samstarfi fyrir bankann og það gerir okkur kleift að beina okkar kröftum enn markvissar að okkar kjarnastarfsemi – sem er að veita okkar viðskiptavinum góða fjármálaþjónustu,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.