*

miðvikudagur, 16. janúar 2019
Fólk 21. júní 2017 11:40

Nýir framkvæmdastjórar hjá Meniga

Áslaug tekur við starfi framkvæmdastjóra innleiðingaþjónustu og Hrefna við starfi framkvæmdastjóra hugbúnaðarþróunar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Áslaug S. Hafsteinsdóttir og Hrefna Lind Ásgeirsdóttir hafa tekið sæti í framkvæmdastjórn Meniga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Meniga.

Áslaug S. Hafsteinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri innleiðingaþjónustu Meniga en undir sviðið falla öll innleiðingarverkefni og þjónusta við viðskiptavini félagsins. Áslaug hefur starfað sem verkefnasstjóri og deildarstjóri hjá Meniga frá árinu 2011. Hún starfaði áður við áhættustýringu hjá Landsbankanum árin 2005-2011. Áslaug útskrifaðist með BS gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1996.

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar hjá Meniga en undir sviðið fellur öll hugbúnaðarþróun félagsins. Hrefna Lind hefur gegnt ýmsum lykilstörfum hjá Meniga frá árinu 2012, nú síðast starfi vörustjóra. Áður starfaði hún sem forritari hjá Landsbankanum og Advania á árunum 2006-2011. Hrefna Lind útskrifaðist með BS gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og meistaragráðu í Design & Digital Media frá Edinborgarháskóla árið 2010.

Georg Lúðvíksson forstjóri og einn stofnenda Meniga segir í fréttatilkynningunni: "Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Hrefnu og Áslaugu í framkvæmdastjórn Meniga. Þær eru meðal reynslumestu starfsmanna félagsins og njóta mikils trausts hjá stjórnendum og starfsmönnum þess. Ég er því sannfærður um að þær muni styrkja stjórnendateymið og hlakka til að sjá þær takast á við þau fjölmörgu spennandi og krefjandi verkefni sem fram undan eru hjá okkur,"