Óttar, Rafn Viðar og Rúnar Steinn hafa verið ráðnir til Fossa markaða. Óttar Helgason gengur til liðs við erlendra markaði. Rafn Viðar og Rúnar Steinn munu starfa innan teymis innlendra markaða, þar sem  Rafn mun starfa við greiningu á mörkuðum og Rúnar við miðlun innlendra hluta- og skuldabréfa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Óttar Helgason starfaði áður í fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans frá byrjun árs 2016. Óttar vann áður sem ráðgjafi fyrir innlenda og erlenda fjárfesta, bæði á Íslandi og erlendis. Óttar starfaði sem sjóðstjóri lífeyrissjóða í eignastýringu Landsbankans frá 2005 til 2008. Frá 2003 til 2005 starfaði Óttar við sjóðstýringu á alþjóðasviði Seðlabanka Íslands. Áður vann hann í gjaldeyrismiðlun Íslandsbanka hf. Óttar er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík.

Rafn Viðar Þorsteinsson starfaði áður hjá Thule Investments, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Arion banka samhliða námi. Rafn Viðar er með B.Sc. og M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Í meistaraverkefni sínu greindi Rafn orsakasamhengi íslenska hagkerfisins og fékk styrk frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu til frekari rannsókna.

Rúnar Steinn Benediktsson starfaði áður í markaðsviðskiptum Íslandsbanka. Frá 2015 starfaði Rúnar í verðbréfamiðlun bankans með áherslu á miðlun skuldabréfa. Frá 2012 til 2015 starfaði hann við gjaldeyrismiðlun, þar sem hann átti viðskipti með gjaldeyri og gjaldeyrisafleiður og var auk þess milligönguaðili í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans á þeim tíma. Rúnar starfaði hjá VÍS árin 2011 til 2012. Rúnar lauk B.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2011. Hann hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum, ACI Dealing prófi í gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum, auk þess sem hann vinnur að MCF gráðu í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.