Fjórir nýir starfsmenn hafa nú hafið vinnu hjá HS Orku. Þau munu öll sinna verkefnum tengt auðlindum og orkuöflun sem HS Orku hefur verið treyst fyrir.

Axel Viðarsson hefur verið ráðinn sem orkuverkfræðingur á þróunarsviði. Axel er 26 ára, með meistaragráðu í endurnýjanlegum orkugjöfum frá Kingston háskóla í London og B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Helstu verkefni Axels munu tengjast þróun á beislun vindorku til raforkuframleiðslu auk annarra þróunarverkefna tengdum orkuöflun.

Marín Ósk Hafnadóttir hefur verið ráðin sem sérfræðingur í jarðefnafræði. Marín er 29 ára, með meistaragráðu í jarðfræði með sérhæfingu í jarðefnafræði frá Tækniháskólanum í Lundi í Svíþjóð og B.Sc. í jarðfræði frá Háskóla Íslands. Helstu viðfangsefni Marínar verða á sviði rannsókna á jarðefnafræði auðlinda auk verkefna tengdum umhverfismálum.

Sigrún Brá Sverrisdóttir hefur verið ráðin orkuverkfræðingur. Sigrún er 25 ára, með meistaragráðu í orkuverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. í efnaverkfræði frá Háskólanum í Fayetteville, Arkansas í Bandaríkjunum. Sigrún mun vinna að rannsóknum á jarðhitaauðlindunum í Svartsengi og á Reykjanesi.

Ari Stefánsson hefur verið ráðinn sem verkefnastjóri borverka. Ari er 55 ára með meistaragráðu í vélaverkfræði frá Chalmers tækniháskólanum í Svíþjóð og B.Sc. í vélatæknifræði frá Háskóla Íslands. HS Orka hefur í fimmtán ár tekið þátt í íslenska djúpborunarverkefninu (IDDP) ásamt Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkustofnun.