Eyþór Guðjónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður þjónustudeildar Fjárvakurs og Þórunn Ragnarsdóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri IGS. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair Group.

Eyþór forstöðumaður þjónustudeildar Fjárvakurs

Eyþór Guðjónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður þjónustudeildar Fjárvakurs, sem veitir sérfræðiþjónustu á sviði reikningshalds og skattamála.

Eyþór er löggiltur endurskoðandi, er með M.Acc. gráðu í reikningsskilum og endurskoðun og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað hjá Deloitte síðan 2008 við endurskoðun og uppgjör stórra og meðalstórra fyrirtækja, auk þess að vera hluti af IFRS sérfræðihóp Deloitte sem sérhæfir sig í alþjóðlegum reikningsskilareglum (IFRS).

Fjárvakur er í eigu Icelandair Group og sérhæfir sig í umsjón fjármálaferla fyrir meðalstór og stór fyrirtæki.  Félagið var stofnað árið 2002 og eru starfsmenn rúmlega 140 á Íslandi og Eistlandi.

Þórunn nýr fjármálastjóri IGS

Þórunn Ragnarsdóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri hjá IGS sem er alþjóðlegt flugþjónustufyrirtæki í eigu Icelandair Group. Þórunn er með MSc gráðu í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Árósum og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún var fjármálastjóri Norræna hússins 2009-2016, en hefur síðan þá starfað sem skrifstofustjóri hjá STEF. Áður starfaði Þórunn hjá Samskip og Olíufélaginu.

IGS annast flugvallaþjónustu við flugfélög og farþega á Keflavíkurflugvelli. Starfsemin skiptist í flugafgreiðslu, flugeldhús og fraktafgreiðslu, og fer starfsmannafjöldinn yfir 1000 manns yfir háannatíma.