Seðlabanki Íslands hefur tekið þá ákvörðun að veita lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál til fjárfestinga í erlendum gjaldeyri. Samtals nemur heimildin 15 milljörðum sem mun gilda til ársloka. Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabanka Íslands .

Frá miðju síðasta ári til lok september á þessu ári þá hefur fyrrnefndum aðilum verið veitt heimild til erlendrar fjárfestingar fyrir samtals 80 milljarða. Á þessu ári nema veittar heimildir samtals 85 milljörðum að þessari meðaltalinni, segir í frétt Seðlabankans.

„Að þessu sinni er undanþágan til erlendra fjárfestinga lægri fjárhæð en áður sem helgast af varúðarsjónarmiðum vegna nýsamþykktra breytinga á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál sem fela í sér veigamikil skref í losun fjármagnshafta á einstaklinga og fyrirtæki,“ er einnig tekið fram í fréttinni.

Rökin fyrir því að veita undanþáguna að sögn Seðlabankans er sú að þjóðhagslegur ávinningur felist í því að gera lífeyrissjóðum kleift að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum og minnka jafnframt uppsafnaða erlenda fjárfestingaþörf þeirra, þegar kemur að losun hafta. Með þessu er því dregið úr hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum við losun fjármagnshafta.