Ráðamenn í Tyrklandi hyggjast leggja nýjar línur í efnahagsmálum eftir að gengi gjaldmiðils landsins, Tyrknesku Lírunnar, náði sögulegu lágmarki á mánudag. Financial Times segir frá .

Eftir að tyrknesk sendinefnd til Washington – með það að markmiði að fá viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna gagnvart Tyrklandi afléttum – hafði ekki erindi sem erfiði, féll líran um rúm 3% í tæpar 5,5 lírur á Bandaríkjadal, og hefur nú veikst um 30% frá áramótum.

Til stendur að Berat Albayrak, fjármálaráðherra, kynni „nýja efnahagsáætlun“ á morgun, föstudag. Mun áætlunin felast í aðgerðum til að kæla hagkerfið, en meðal áhyggja fjárfesta er óstöðugur vöxtur hagkerfisins og mikil erlend skammtímaskuldsetning.

Tilkynningin dugði hinsvegar ekki til að sefa áhyggjur markaðarins, sem hefur miklar áhyggjur af vaxandi gjá milli Tyrkneskra yfirvalda og ríkisstjórnar Donalds Trump.