Íslendingar eru í fararbroddi við sæbjúgnaveiðar í Evrópu, en megnið af aflanum er seldur óunninn til Kína. Á síðasta ári hlaut Aurora Seafood ehf. 1,7 milljónir evra frá Evrópusambandinu til að þróa veiðarfæri og vinnslubúnað ásamt því að koma markaðsstarfi í betra horf.

Nú þegar tæpt ár er liðið frá styrkveitingunni segir Davíð Freyr Jónsson framkvæmdastjóri Aurora Seafood verkefninu miða vel áfram.

„Það sem við höfum verið að gera er að þróa veiðarfærin frekar,“ segir Davíð Freyr. Töluverðar breytingar hafa orðið á þeim plógum sem notaðir eru við sæbjúgnaveiðar hér við land undanfarinn áratug eða svo. Í staðinn fyrir skíðisplógana gömlu eru menn í meira mæli farnir að nota einskonar píanó-plóga með hjólum.

„Viðnámið við botninn er orðið miklu minna fyrir vikið. Viðhald á veiðarfærum er líka búið að fara úr miklu niður í mjög lítið. Við höfum aðeins verið að bæta við þessa þróun m.a. með nemabúnað, en aðallega höfum við verið að skilgreina hana betur og staðla veiðarfærin.“

Fyrstu athuganir, gerðar í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun, benda til þess að nýju veiðarfærin séu betri en þau gömlu en greiningu gagnanna er þó ekki lokið.

Betri meðhöndlun aflans
„Í rannsóknunum komu sterkar vísbendingar um að bæði sé meðhöndlum á afla betri, það sé minna af skemmdum bjúgum sem geta lent undir skíðunum og sprungið og svona, og líka sé veiðihæfni þessa nýja plógs einfaldlega meiri.“

Þróun veiðarfæra er þó aðeins fyrsti hluti verkefnisins af þremur.

„Númer tvö er þróun á búnaði til vinnslu. Við stefnum þá að því að vinna sæbjúgun lengra en við höfum verið að gera hér, nema þá bara í höndunum. Á Íslandi er það bara ekki gerlegt lengur með vinnulaunin eins og þau eru orðin í dag. Þá þurfum við tækniframfarir eins og bolfiskur á Íslandi er búinn að fara í gegnum á undanförnum tíu árum.“

Hann segir undirbúningsvinnuna á þessum hluta verkefnisins vel á veg komna.

„Teiknivinna stendur yfir og hönnun er mestmegnis að verða lokið. Ég vænti þess að nýr vinnslubúnaður verði verði mjög langt kominn í byrjun næsta árs eða svo.“

Upphaflega var samið við Völku um að smíða tækjabúnaðinn en Curio hefur tekið við þeirri þróun í dag..

„Valka fékk stóran samning við Samherja og urðu svolítið önnum kafnir. Curio tók þá við boltanum.“

Erfitt rekstrarumhverfi
Þriðji hluti verkefnisins lýtur síðan að markaðssetningu, umbúðahönnun og slíku. Kína hefur verið mikilvægasti markaður heimsins fyrir sæbjúgu.

„Við ætlum að reyna að koma sæbjúgum betur áleiðis inn á markaði í Kína. Við þurfum því að greina markaðinn, reyna að átta okkur betur á þessu. Þó við séum búinir að standa í þessu í 15 -16 ár þá er kínverskur markaður bara mjög erfiður. Þú ferð ekkert inn á neinn gagnagrunn og flettir upp hvernig staðan er, það er eiginlega ekkert til um þetta.“

Hann segir að styrkurinn frá Evrópusambandinu hafi skipt sköpum. „Við höfðum sótt um styrki hér á landi t.d. í Rannís en áherslur á atvinnuþróun hafa að mestu vikið og krafan um uppfinningar er mjög ráðandi og því reyndist betra fyrir svona verkefni að sækja stuðning út fyrir Ísland. Ekkert af þessu væri yfirhöfuð hægt í rekstrarumhverfi sjávarútvegs hér eins og staðan er í dag. Við færum ekki í svona sókn á þessum tímapunkti með krónuna eins og hún er. Fyrirtækin hafa bara ekki getu til þess.“