Fyrr í þessum mánuði tók Þorsteinn Guðjónsson við starfi forstöðumanns á sölusviði WOW air. Þorsteinn kveðst vera spenntur fyrir nýja starfinu.

„Þetta starf leggst gríðarlega vel í mig. Starfsbakgrunnur minn hefur svolítið einkennst af frumkvöðlastarfi og á slíkt umhverfi mjög vel við mig. Það er frumkvöðlaandi sem svífur hér yfir vötnum hjá WOW air og þessi andi höfðar vel til mín. Ég er mjög spenntur fyrir því sem ég hef þegar upplifað hér og sömuleiðis fyrir þeim verkefnum sem fram undan eru.

Ég tel að lággjaldaflugfélög séu búin að stimpla sig vel inn og eru í örri þróun. Til marks um það ætlar WOW air að hefja flug til Indlands í vetur. Það er allt annar heimur en við erum vön og það verður því svolítið eins og að byrja með nýtt flugfélag. Þetta sýnir þann eldhug sem er hér innanhúss og þá stefnu sem Skúli hefur lagt hér inn frá degi eitt. Það er frábært fyrir ferðaþjónustuna að menn séu þetta stórhuga og þori að taka skref inn á nýjan markað."

Þorsteinn er með BS-gráðu í hagfræði með áherslu á markaðsfræði frá Auburn University Montgomery, sem er í Alabamaríki í Bandaríkjunum og MBA gráðu með áherslu á alþjóðleg viðskipti frá sama skóla. „Mér tókst að dúxa í hagfræði í grunnnáminu og skólinn bauð mér því að hefja meistaranám með fullan skólastyrk. Leiðbeinandi minn í skólanum skoraði á mig að afla mér reynslu á vinnumarkaðnum áður en ég færi í meistaranámið, til þess að fá meira út úr meistaranáminu. Því liðu nokkur ár á milli þess að ég kláraði grunnnámið og þar til ég hóf meistaranámið," segir Þorsteinn.

Mikill áhugi á íþróttum

Íþróttir eru helstu áhugamál Þorsteins. „Ég er mikill íþróttaáhugamaður og æfði handbolta og fótbolta með KR upp yngri flokkana. Ég spila golf reglulega og er í Nesklúbbnum. Golfið hefur gengið ágætlega í sumar og það er gaman að segja frá því að mér lukkaðist að fara holu í höggi um þar síðustu helgi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .