Í fyrra var mesti afgangur af þjónustujöfnuði hér á landi frá upphafi en greining Íslandsbanka fjallar um nýbyrtar tölur Hagstofunnar en þeir segja útlit fyrir að áfram megi búast við myndarnlegum viðskiptaafgangi á þessu ári vegna vaxtar í ferðamannaiðnaðinum hér á landi.

Síðasta ár var það fyrsta í hagsögu lýðveldisins þar sem þjónustuútflutningur í krónum talið var meiri en vöruútflutningur, sem endurspeglar aukið vægi ferðaþjónustunnar.

Áætlar greining Íslandsbanka að tekjur af erlendum ferðamönnum nemi um það bil 39% af heildarútlutningstekjum síðasta árs, en sjávarútvegur segja þeir hafi numið um 19% og álútflutningur um 15% heildartekna af útflutningi.

Búast þeir jafnframt við að viðskiptaafgangur síðasta árs hafi numið 6-7% en Seðlabankinn mun birta þær tölur á morgun.

Tvöfaldur afgangur milli ára

Á síðasta ársfjórðungi 2016 voru þjónustuviðskiptin við útlönd um 43,4 milljarðar, sem er nánast tvöfaldur afgangur á við það sem var á sama tíma árið áður.

Kemur þessi aukning fyrst og fremst vegna 50% aukningar í tekjum vegna ferðalaga og 13% aukningar í tekjum af samgöngum á mlii ára, en þessir liðir áttu einna stærstan þátt í því að þjónustuútflutningur jókst á fjórðungnum um 16% á milli ára.

Nam hann 143 milljörðum króna á tímabilinu en á sama tíma stóð þjónustuinnflutningurinn hins vegar nánast í stað á sama tíma, en hann nam 99 milljörðum króna á síðasta ársfjórðungi ársins 2016.

Nemur 11% af VLF

Þjónustujöfnuðurinn sem mældist jákvæður um 260,3 milljarða króna á síðasta ári samsvarar tæplega 11% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins, sem er aukning um rúma 58 milljara króna á milli ára.

Þjónustuútflutningurinn jókst um 75 milljarða króna á milli ára og var hann í fyrra í heildina 659 milljarðar króna.

Aukningin vegna ferðalaga jókst um 78 milljarða króna og tekjur af samgöngum og flutningum jókst um 13 milljarða króna, en á móti dróst lítils háttar saman tekjur af ýmsum öðrum tegundum þjónustuútflutnings.

Metár í utanlandsferðum Íslendinga

Á sama tíma jókst þjónustuinnflutningurinn um rúma 16 milljarða króna milli ára og nam hann 389 milljörðum króna, en aukningin kom fyrst og fremst til vegna aukinnar neyslu erlendis enda var árið 2016 metár í utanlandsferðum Íslendinga.

Samanalagt var afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd um 159 milljarðar króna á síðasta ári, sem samsvarar um 7% af vergri landsframleiðslu. Nam vöruskiptahallinn tæpum 102 miljörðum króna, þó nákvæm tala fari eilítið eftir því hvernig reiknað er.

Þriðji mesti frá upphafi

Er um þriðja mesta vöru- og þjónustujöfnuð frá upphafi að ræða, en hann minnkaði þó um tæpa 8 milljarða króna á milli ára, vegna 66 milljarða aukningar í vöruviðskiptahalla mili ára.

Greining Íslandsbanka segir rótina fyrir auknum halla vera samdráttur í útflutningstekjum og vegna aukins innflutnings, sem jókst hraðar í magni talið heldur en útflutningurinn, en inn í þetta kemur styrking krónunnar.