Áframhaldandi hrun Tyrknesku lírunnar og hlutabréfamarkaðarins í morgun dró aðra nýmarkaði niður með sér (e. Emerging markets). Eftir allt að 10% hrun tyrkneska gjaldmiðilsins lækkuðu hlutabréf um alla Asíu; meginvísitala Indónesíu lækkaði um 3%. Framvirkir samningar á bandaríska hlutabréfamarkaðnum lækkuðu einnig.

Líran hélt áfram að falla gagnvart Bandaríkjadal í morgun, á meðan fjárfestar bíða eftir að Berat Albayrak, fjármálaráðherra Tyrklands, afhjúpi nýja efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar seinna í dag. Þegar mest lét hafði líran fallið yfir 10% gagnart dollarnum, en náði sér örlítið á strik eftir að seðlabankinn lofaði að tryggja bönkunum „allt það lausafé sem þeir þurfa“, auk aðgangs að gjaldeyrisvaraforða bankans, og er nú um 6,5% lægri en í gær.

Hrun lírunnar „gæti ekki hafa komið á verri tíma, þar sem fjárfestar voru órólegir fyrir“ samkvæmt sérfræðingi J.P. Morgan, en Suður-Afríska randið féll um allt að 9% gagnvart dollarnum, í sitt lægsta gildi í 2 ár, og kínverska yuanið nálgaðist sitt lægsta gildi gagnvart dollarnum í yfir ár. Þá hækkaði skuldatryggingaálag Indónesíu um 14%, og álag Filippseyja um 10%.

Rígur vegna bandarísks prests
Helsta ástæða neikvæðni um framtíðarhorfur Tyrklands er rígur og vaxandi spenna milli ríkisstjórnarinnar í Ankara og ríkisstjórnar Donalds Trump í Bandaríkjunum. Bandarísk yfirvöld krefjast þess að bandarískur prestur – sem á yfir höfði sér ákæru og allt að 35 ára fangelsisdóm fyrir hryðjuverk – verði látinn laus og hann sendur heim til Bandaríkjanna.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hefur hinsvegar hafnað öllum slíkum kröfum, sakað ríkisstjórn Trump um að ögra sér, og hótað að finna sér nýja bandamenn, til dæmis Rússa eða Kínverja, en Tyrkland er lykilmeðlimur í NATO sökum landfræðilegrar legu sinnar.

Umfjöllun Wall Street Journal.
Umfjöllun Financial Times.