Gita Gopinath, aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er sammála ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Bandaríkjanna um að halda vöxtum óbreyttum. Financial Times hefur eftir Gopinath að horfur í heimsviðskipum hafi versnað umtalsvert og óvissa fari hratt vaxandi.

Gita Gopinath, sem tók við stöðu aðalhagfræðings AGS í upphafi árs, bendir sérstaklega á að útlitið hafi sérstaklega versnað á evrusvæðinu og í hagkerfi Kína. Hún óttist að hagtölur muni sýna að samdráttur hafi átt sér stað í heimsviðskiptum í desember sl.. Hins vegar segir Gopinath ákvörðun um að halda vöxtum óbreyttum í Bandaríkjunum muni styðja mjög við efnahagslífið, ekki eingöngu í Bandaríkjunum heldur líka á nýmörkuðum sem hafi átt erfitt uppdráttar vegna þrenginga á alþjóða fjármálamörkuðum.

Viðsnúningur bandaríska Seðlabankans hafi jafnframt haft áhrif á ákvarðanir seðlabankanna í Indlandi, Ástralíu og Bretlandi sem noti nú varfærnari orðræðu og hafi slegið fyrirhuguðum vaxtahækkunum á frest. En þrátt fyrir að Seðlabankinn vestra hafi aukið andrými í heimshagkerfinu þá sér Gopinath blikur á lofti enda hafur AGS lækkað hagvaxtaspá sína eftir að hún tók við sem aðalhagfræðingur.

Gita Gopinath er 47 ára og var hagfræðiprófessor við Harvard háskóla áður en hún gekk til liðs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn núna um áramótin. Hún fæddist í Kolkata í Indalandi og er fyrsta konan sem gegnir stöðu aðalhagfræðings hjá sjóðnum. Hún og kláraði fyrst háskólanámi í Háskólanum í Delhi áður en hún fór til Bandaríkjanna þar sem hún lauk doktorsprófi við Princeton háskóla.