Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var nýr borgarstjórnarmeirihluti myndaður í Reykjavík í dag, meirihluti Sjálfstæðismanna og F-lista.

Hinn nýi meirihluti mun standa saman af sjö borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks og fulltrúa F-listans, Ólafi F. Magnússyni.

Talið er að Ólafur verði borgarstjóri að minnsta kosti hluta af kjörtímabilinu en ekki liggur ljóst fyrir ennþá hvernig embættum og nefndum verður skipt niður.

Í morgun bárust fréttir af því að viðræður hefðu átt sér stað um helgina milli oddvita flokkanna, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar fyrrverandi borgarstjóra og Ólafs F. Magnússonar fulltrúa Frjálslyndra og óháðra.

Núverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson sagði við fjölmiðla í dag að ekkert væri til í þessum fréttum og vísaði þeim á bug.

Eins og kunnugt er var nýr meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, VG og F-lista myndaður í október síðastliðinum eftir að Björn Ingi Hrafnsson, fulltrúi Framsóknarflokks sleit meirihlutasamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.