Dr.  Guðmundur Hálfdanarson, Jóns Sigurðssonar prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, tók við starfi forseta Hugvísindasviðs Háskóla Íslands af Ástráði Eysteinssyni prófessor um áramót.

Guðmundur lauk doktorsprófi í evrópskri félagssögu frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum árið 1991. Fyrir það hafði hann lokið meistaraprófi í sagnfræði frá sama skóla árið 1985. Guðmundur stundaði nám í Svíþjóð og á Íslandi og lauk m.a. bakkalárprófi í sagnfræði og fornleifafræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og kandídatsprófi í sagnfræði frá sama skóla tveimur árum síðar.

Guðmundur var skipaður í stöðu Jóns Sigurðssonar prófessors við Háskóla Íslands árið 2012. Hann var ráðinn lektor í sagnfræði árið 1991, varð dósent í sömu grein árið 1993 og loks prófessor árið 2000. Hann er afkastamikill fræðimaður á sviði hugvísinda og hefur birt mikið bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi. Hann var aðalritstjóri Scandinavian Journal of History frá 2010 til 2015 og var einn þriggja ritstjóra ritraða CLIOHRES-öndvegisnetsins og hefur ritstýrt fjölda bóka.