Dr. Sigríður Klara Böðvarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Lífvísindaseturs Háskóla Íslands.Þetta kemur fram í tilkynningu frá háskólanum.

Sigríður Klara lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1995, MS-prófi í plöntuerfðafræði árið 2000 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum árið 2008, hvort tveggja frá sama skóla. Sigríður Klara hefur um árabil lagt stund á grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini, m.a. á Rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði og við Háskóla Íslands. Frá árinu 2013 hefur Sigríður Klara gegnt stöðu rekstrarstjóra Lífvísindaseturs samhliða rannsóknum sínum.

„Lífvísindasetur er samstarfsvettvangur vísindamanna í lífvísindum við Háskóla Íslands og samstarfsstofnana. Meginmarkmið setursins er að byggja upp kjarnaeiningar í tækjakosti og aðferðafræði sem nýtist sem flestum og efla þar með rannsóknir og slagkraft íslensks vísindasamfélags á sviði lífvísinda,“ segir í tilkynningunni.