Steingrímur Arnar Finnsson hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn Fossa markaða sem framkvæmdastjóri markaðsviðskipta. Steingrímur hefur leitt uppbyggingu markaðsviðskipta Fossa frá stofnun, síðast sem forstöðumaður, og er breytingin liður í aðlögun að víðtækari starfsemi félagsins. Auk hans eiga sæti í framkvæmdastjórn samstæðunnar þau Haraldur I. Þórðarson forstjóri, Birna Hlín Káradóttir, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs, Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fossa í Svíþjóð, og David Witzer, framkvæmdastjóri Fossa í Bretlandi.

Frá því að Fossar markaðir hóf starfsemi fyrir tæpum þremur árum hefur umfang starfseminnar tekið töluverðum breytingum og nú er svo komið að fyrirtækið rekur skrifstofur í þremur löndum með margþætta þjónustu við innlenda og alþjóðlega fjárfesta.

Samhliða auknum umsvifum hefur starfsmannahópurinn tekið nokkrum breytingum en á síðasta ári hófu níu starfsmenn störf hjá félaginu. Þá hafa þeir Gunnar Freyr Gunnarsson og Þorbjörn Atli Sveinsson jafnframt látið af störfum. Þeir voru meðal fyrstu starfsmanna Fossa og eiga sinn þátt í vexti og viðgangi félagsins undanfarin ár. Eru þeim þökkuð vel unnin störf og óskað velfarnaðar í framtíðinni.