Jóhannes Stefánsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Lindarvatns. Lindarvatn á Landssímareitinn og mun reisa íbúðir, veitingastaði, verslanir og hótel á reitnum. Jafnframt verður NASA endurbyggt í upprunalegri mynd. Jóhannes tekur við starfinu af Davíð Þorlákssyni, sem sagði starfinu lausu þegar hann réði sig til Samtaka atvinnulífsins í október síðastliðnum.

Jóhannes starfaði áður á lögfræðisviði Icelandair Group, en hann er héraðsdómslögmaður. Hann var aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar, fyrrverandi mennta- og menningarmála og áður blaðamaður á Viðskiptablaðinu og fréttamaður á fréttastofu 365.

„Ég er mjög ánægður með að fá að taka þátt í því að glæða miðbæinn lífi með því að byggja upp íbúðir, veitingahús og verslanir á besta stað í borginni,“ segir Jóhannes.

„Þarna verður einnig reist hótel í hæsta gæðaflokki til að mæta eftirspurn frá vel borgandi ferðamönnum. Miðbærinn hefur  gjörbreyst og er allt annar eftir að Ísland, ekki síst Reykjavík, varð einn heitasti áfangastaður í heiminum. Mér finnst líka mjög jákvætt að það standi til að byggja upp NASA í upprunalegri mynd, en þarna hefur auðvitað verið einn ástsælasti tónleikastaður Reykvíkinga um árabil. Hann mun því koma aftur.“

Áætlað er að framkvæmdir hefjist snemma árs 2018 og að verklok verði um mitt ár 2019. Hönnun á reitnum hefur staðið yfir lengi undir stjórn THG Arkitekta. Jafnframt fór fram fornleifarannsókn, undir stjórn Völu Garðarsdóttur  fornleifafræðings með eftirliti Minjastofnunar, en rannsókn á reitnum lauk í ársbyrjun 2017.