Vegamálastjóri og fulltrúar pólsku skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. skrifuðu undir samning um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju í gær. Ferjan verður afhent sumarið 2018, samkvæmt samningi. Ríkiskaup önnuðust útboð ferjunnar.

„Að teknu tilliti til allra þátta reyndist tilboð þeirra hagstæðast eftir að norsk skipasmíðastöð féll frá sínu tilboði. Nýja ferjan mun rista mun grynnra en gamli Herjólfur og þannig geta siglt mun oftar í Landeyjahöfn,“ segir í frétt á vef Vegagerðarinnar .

Skipasmíðastöðin hefst handar nú þegar við smíðina og ætti ferjan að vera tilbúin um 20. júní samkvæmt samningnum - og því mun gamli Herjólfur sigla í síðasta sinn með gesti á þjóðhátíð í Eyjum núna í sumar. Tilboð Crist hljóðaði upp á 26,2 milljónir evra, eða því sem jafngildir um 3,16 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi.