Íslenska auglýsingastofan hefur ráðið Guðlaug Aðalsteinsson til þess að leiða sköpunarvinnu stofunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Guðlaugur er 37 ára og með áralanga reynslu af auglýsingaheiminum. Hann útskrifaðist árið 2005 með BA-gráðu í „Advertising & marketing communications“ frá Bournemouth University í Bretlandi og hefur síðan starfað m.a. sem hugmyndasmiður, viðskiptastjóri og birtingastjóri árin 2004–2009 á auglýsingastofunni Himinn & haf og hjá TBWA/Reykjavík. Hann var „Creative Director“ og markaðsráðgjafi hjá Vatikaninu auglýsingastofu 2009–2012 en undanfarin sex ár hefur hann starfað sem hugmyndasmiður og viðskiptastjóri hjá auglýsingastofunni Brandenburg.

Guðlaugur hefur unnið með mörgum þekktum vörumerkjum á borð við Coca-Cola, LazyTown, Thule, Sláturfélag Suðurlands, 10-11, Hámark, Kjörís, Þjóðleikhúsið, Íslandsbanka, Aktu-Taktu, Eldsmiðjuna, American Style, Sorpu, Nova, WOW air, Lyfju, Hörpu og Domino’s.

Hann hefur komið að og leitt fjölmörg verkefni sem unnið hafa til verðlauna og viðurkenninga á Lúðrinum íslensku auglýsingaverðlaununum, FÍT, ACD*E og ISWA. Einnig hefur verið fjallað um verk hans í Adweek og Shots magazine. Þá hefur Guðlaugur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra um hugmyndavinnu og skapandi hugsun, meðal annars hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Reykjavík Letterpress og víðar.

Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, segir það mikið ánægjuefni að fá eins reynslumikinn og hæfileikaríkan mann eins og Guðlaug í þetta mikilvæga hlutverk. „Við höfum fylgst grannt með Guðlaugi og verkum hans í nokkurn tíma. Hann er mikill auglýsingamaður og hefur komið að mörgum eftirtektarverðum herferðum á undanförnum árum.“

Guðlaugur segir sjálfur mikla gerjun á auglýsingamarkaðnum og spennandi tíma framundan. „Þetta er frábær tímapunktur til þess að ganga til liðs við Íslensku auglýsingastofuna sem hefur um árabil verið ein öflugasta auglýsingastofa landsins. Íslenska, sem fagnar þrjátíu ára starfsafmæli í ár, hefur þróað og unnið markaðsefni fyrir mörg þekktustu vörumerki landsins og ég er fullur tilhlökkunar að vinna með viðskiptavinum stofunnar og þeim kraftmikla hópi fólks sem þar er fyrir.“