BRICS löndin svokölluðu; Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður Afríka, opnuðu í dag nýjan þróunarbanka sem heitir einfaldlega Nýi Þróunarbankinn (New Developement Bank) í Shanghai.

Þessi lönd styðja bankann og mun hann lána peninga til þróunarlanda sem notaðir verða til að fjárfesta í innviðum. Litið er á bankann sem mögulegan staðgengil fyrir Heimsbankann (World Bank) eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þó BRICS löndin segi að ekki sé um samkeppnisaðila að ræða.

„Markmið okkar er ekki að berjast gegn kerfinu eins og það er í dag, heldur bæta það á okkar eigin hátt,“ sagði Kundapur Vaman Kamath, forstjóri New Developement Bank.

BRICS löndin hafa gagnrýnd Heimsbankann og AGS fyrir að leyfa þróunarríkjum ekki að hafa nógu mikil áhrif á gang mála, en þau funduðu fyrir tveimur vikum í rússnesku borginni Ufa.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekur stofnun nýja bankans fagnandi og telur að hann muni styrkja samband BRICS landanna. Upphaflegt fjármagn bankans er 50 milljarðar Bandaríkjadala og verður sú upphæð tvöfölduð á næstu árum.