Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, kynnti í dag nýjan tíu punda seðil í tilefni að því að 200 ár eru liðin frá andláti breska rithöfundarins Jane Austen. Mun Austen prýða aftari hlið seðilsins en Elísabet Englandsdrottning framhliðina. Elísabet verður þar með ekki lengur eina konan sem prýðir breska peningaseðla. Seðillinn verður settur í umferð þann 14. september næstkomandi.

Seðilinn er plastkenndur og gerður með sama hætti og nýr fimm punda seðill sem fór í umferð síðasta haust. Er seðillinn þannig gerður að hann á að vera vatnsfráhrindandi og á að endast lengur en sá fyrri. Þá er hann einnig fyrsti seðillinn sem Englandsbanki gefur út sem inniheldur blindraletur.

Þar sem seðillinn er gerður með sama hætti og fimm punda seðillinn má búast við nokkurri gagnrýni frá fólki sem aðhyllist vegan lífsstíl. Ástæðan er sú að seðillinn inniheldur tólg sem búin er til úr dýrafitu. Það má því gera ráð fyrir að vegan samfélagið í Bretlandi muni láta í sér heyra vegna þessa. Þess má geta að þegar 5 punda seðillinn var settur í umferð söfnuðust um 100 þúsund undirskriftir þar sem þess var krafist að seðillinn yrði tekinn úr umferð.