*

mánudagur, 23. október 2017
Erlent 9. ágúst 2012 14:15

Nýríkir Kínverjar æstir í Range Rover Evoque

Afkoma Jaguar Land Rover hefur batnað talsvert á milli ára. Batinn skrifast á mikla sölu á bílum í Kína.

Ritstjórn

Mikil eftirspurn eftir gæðabílum undir merkjum Range Rover Evoque  í Kína á stóran þátt í því að breski bílaframleiðandinn Jaguar Land Rover hagnaðist um rúmar 500 milljónir punda, jafnvirði 93 milljarða íslenskra króna, á öðrum fjórðungi ársins. Þetta er 45% aukning á milli ára.

Sala á Evoque-jeppunum jókst um 91% á milli ára í Kína og stóð hún undir rúmum fimmtungi af allri bílasölu fyrirtækisins eða 22,2%. Til samanburðar nam hlutfall seldra bíla í Kína 15,7% af heildarsölunni á sama tíma í fyrra. Sala Jaguar Land Rover jókst á heimsvísu nokkuð minna eða um 34% á milli ára. Evoque-bílarnir voru langsamlega vinsælustu bílar framleiðandans en á þessu þriggja mánaða tímabili seldust 83.452 bílar undir merkjum jeppanna. Á sama tíma seldust 72 þúsund Land Rover-jeppar og 12 þúsund bílar undir merkjum Jaguar. 

Fram kemur í uppgjöri Jaguar Land Rover að tekjur námu 3,6 milljörðum punda á öðrum ársfjórðungi sem er 35% vöxtur á milli ára. 

í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian segir að eigendur Jaguar Land Rover ætli að greiða sér 150 milljóna punda arð vegna afkomunnar. Eigendurnir eru hins vegar ekki Bretar heldur indverska iðnsamsteypan Tata Motors. Indverjarnir þurfa að sögn Guardian á arðgreiðslunni að halda þar sem hægt hafi á umsvifum á Indlandi og gengislækkunar rúpísins, gjaldmiðils Indverja.