Helga Valfells er einn stofnenda fjárfestingarsjóðsins Crowberry Capital sem sérhæfir sig í að fjárfesta í ungum vaxtafyrirtækjum. Hún segir mikil tækifæri í fyrstu skrefum nýsköpunar.

Tilkynnt var um stofnun Crowberry Capital slhf. seint á síðasta ári. Helga Valfells, sem áður var framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, var ein þeirra sem standa að nýja sjóðnum ásamt Heklu Arnardóttur og Jenný Ruth Hrafnsdóttur. Nýi sjóðurinn kemur til með að sérhæfa sig í fjárfestingum í ungum vaxtafyrirtækjum.

Helga segir að Nýsköpunarsjóður sé að þróast í átt að því að vera sjóðasjóður, eða sjóður fyrir aðra fjárfestingarsjóði. Þekking og reynsla þeirra Heklu og Jennýjar er að fjárfesta í fyrirtækjum og segir Helga að þær hafi séð að það væri mikil þörf og mörg tækifæri í að koma inn á fyrstu stigum nýsköpunar og að þar gætu bæði fjárfestar og frumkvöðlar hagnast.

Fjársterkir einkaðilar koma að sjóðnum

„Við höfum verið að tala við fjárfesta síðan í desember og ætla þeir að koma inn í þetta verkefni með okkur. Við í raun og veru sjáum okkur sem umsýsluaðila fyrir sjóð, þannig að lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar geti fjárfest í nýsköpun og fengið okkur til að umsýsla fjárfestingarnar.

Við höfum allar fengið mikla reynslu í gegnum Nýsköpunarsjóð og störfum hjá vaxtarfyrirtækjum,“ segir Helga. Hún bætir við að síðan fyrir áramót hafi þær talað við mjög marga aðila og fengið ýmsa fjárfesta með sér í lið. „Okkar vonir standa til að klára það verkefni í sumar. Við erum komin með fast undir þaki að fimm fjársterkir einkafjárfestar komi inn í þetta verkefni með okkur og við erum búnar að fá loforð frá sex lífeyrissjóðum. Síðan eru nokkrir aðrir í samþykktarferli. Lífeyrissjóðirnir fara með þetta í gegnum strangt ferli hjá sér,“ tekur Helga fram. Hún segir að þeim hafi alls staðar verið vel tekið og bætir hún við að þær hafi lagt mikla vinnu í að búa til eigin áætlanir og eigin ávöxtunarmarkmið.

„Sumir segja að nýsköpun sé að detta úr tísku, ég finn alls ekki fyrir því. Ég held að þeir frumkvöðlar sem búa til alvöru lausn fylgi ekki tískustraumum, þeir leysa einfaldlega vandamál,“ segir Helga.

Fylgjast með fimmtíu fyrirtækjum

Helga segir að Crowberry Capital fylgist með um það bil fimmtíu fyrirtækjum sem eru að leita að fjárfestum. „Við viljum fara snemma inn í fyrirtækin og fylgja góðum fyrirtækjum vel eftir. Við höfum reynt að greina hvaða fyrirtæki sem héðan koma eru sterk. Það er heilmikið að gerast í heilbrigðisgeiranum, einnig í alls konar tækni tengd matvælum. Svo má ekki gleyma hugbúnaðarfyrirtækjunum og síðan leikjaiðnaðinum.

Nánar er fjallað um Crowberry Capital og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð .