Fyrirtækið Raförninn ehf. hefur starfað í 30 ár og hefur staðið fyrir ráðgjöf, mælingum, viðhaldi og hugbúnaðargerð fyrir myndgreiningardeildir á heilbrigðissviði. Nú hefur verið stofnað nýtt fyrirtæki, Spectralis. Móðurfélag Spectralis er Verkís. Hildur Ólafsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Spectralis, en hún var áður framkvæmdastjóri Rafarnarins.

„Við erum búin að vinna í heilbrigðisgeiranum í hátt í 10 ár sem hugbúnaðarteymi Rafarnarins. Þar höfum við verið að þróa lausnir til að halda utan um gæðamælingar á myndgreiningarbúnaði og geislameðferðartækjum. Við erum frekar sterk í því. Eins höfum við mikla reynslu af því að samþætta gögn frá ýmsum stöðum,“ segir Hildur. Fyrirtækið leggur enn fremur áherslu á gagnaöryggi og sjálfvirka gagnagreiningu til hámörkunar á rekstraröryggi.

Horfa meðal annars í átt að orkugeiranum

Gögnin sem safnað er eru í kjölfarið notuð til að spá fyrir um hvort tækin séu að fara að bila. „Hugmyndin er að koma í veg fyrir rekstrarstöðvun áður en hún skellur á,“ segir Hildur. Hún segir þetta gríðarlega mikilvægt. „Það sem menn hefur vantað þarna er yfirsýn yfir búnaðinn sinn á einum stað,“ tekur hún fram og leggur áherslu á mikilvægi þess að hafa þetta einfalt.

Hildur segir að megináhersla Spectralis verði enn í heilbrigðisgeiranum en tekur þó fram að það sem Verkís hafði í huga var að geta notað lausnir fyrirtækisins í verkfræðigeiranum. „Þar erum við meðal annars að horfa í átt að orkugeiranum, þar sem gríð­arlegu magni af gögnum er safnað og svona lausnir gætu komið sterkar inn,“ segir Hildur.

Í samstarfi við Karolinska og San Diego spítalann

Raförninn á sér langa og áhugaverða sögu. Fyrirtækið var stofnað árið 1984 en var keypt af Verkís árið 2010. Hildur segir að fyrir um það bil fimmtán árum hafi Smári Kristinsson, einn af stofnendum fyrirtækisins, tekið eftir þörfinni fyrir einhvers konar lausnir í hugbúnaði í starfsemi fyrirtækisins. „Þetta er forveri þessara lausna sem við erum að vinna með núna,“ segir Hildur.

„Upp úr þessum viðgerðum og mælingum sér hann þessa þörf sem og þörf fyrir sjálfvirka myndgreiningu, sem var á þeim tíma ekki endilega augljóst á þessum tíma,“ segir Hildur. „Við erum samstarfi við stofnanir um þetta á borð við San Diego spítalann. Svo erum við að minna mjög mikið með Osló spítala, Karolinska og að sjálfsögðu Landspítalanum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .