Skortur á sérþekkingu á sviði sölu- og markaðsmála er ein stærsta áskorunin sem íslenska nýsköpunarumhverfið stendur frammi fyrir. Þetta er mat starfsmanna hjá sjóðum sem sérhæfa sig í fjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum. Þá skortir skilning á því hjá fjárfestum að uppbygging markaðs- og sölustarfs sé kostnaðarsöm og tímafrek.

Þórður Magnússon, formaður fjárfestingaráðs Eyris Sprota, segir möguleika íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á að byggja upp tæknilega getu vera orðna mjög mikla. Hann nefnir skattaafslátt á rannsóknum og þróun, styrki úr Tækniþróunarsjóði og viðskiptahraðla sem dæmi um það hvernig umgjörð nýsköpunarstarfsemi hér á landi er að mörgu leyti mjög góð.

„Hins vegar er ekki nema hálfur björninn unninn þegar hér er komið við sögu, því meira en helmingurinn af árangrinum byggir á markaðssetningu og sölustjórnun. Þar erum við bara ekkert góð,“ segir Þórður.

Aðgangur að markaði lykilatriði

Spurður um það hvort skortur á sérþekkingu á sviði sölu- og markaðsmála sé vegna aukinnar eftirspurnar eftir slíku starfsfólki segir Þórður að vandinn liggi ekki þar. „Þessi þekking hefur bara ekki verið til staðar. Hún er að eflast frekar en hitt, en hún hefur bara ekki verið til staðar. Og skilningurinn á þessu ekki heldur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .