Hjördís Sigurðardóttir er stofnandi sprotafyrirtækisins Spor í sandinn. Fyrirtækið hefur starfað að uppbyggingu gróðurhvelfinga síðasta hálfa annað árið.

Markmið sprotafyrirtækisins, sem fór meðal annars gegnum viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík, er að byggja upp sérbúnar „BioDome“ gróðurhvelfingar víðs vegar um landið. Hvelfingarnar bjóða upp á ferskar, hreinar og heilsusamlegar matjurtir á markaðstorgi.

Hugmynd Hjördísar miðar að því að tvinna saman sjálfbæra ræktun og afþreyingu í ferðamannaiðnaði sem beislar nýja tekjustrauma.

Fékk hugmyndina í Hollandi

Hjördís er löggildur skipulagsfræðingur og með MSc í landslagsarkitektúr og skipulagi frá Wageningen-háskóla í Hollandi. Það var í Hollandi sem hugmyndin að BioDomes-verkefninu spratt svo upp í huga hennar. Hún tók svo þátt í Startup Reykjavík, viðskiptahraðli á vegum Arion Banka.

„Mér fannst margt gott í boði þar og nýt ég enn góðs af tengslaneti sem ég byggði upp á þessum tíma,“ segir Hjördís.

Fjárfestar bíða átekta

Eins og stendur bíður Hjördís eftir að fá niðurstöður úr lóðaumsóknum sínum fyrir staðina þar sem hún hyggst byggja gróðurhvelfingarnar. Að sögn Hjördísar eru fjárfestar áhugasamir um verkefnið, en galli sé þó á fjárfestingarstefnum nokkurra sjóða, sem eru sumir hverjir of einhæfir í markmiðum sínum.

„Það reynist erfitt að uppfylla stífa fjárfestingarstefnu sem gerir ráð fyrir að hakað sé í eitthvert ákveðið box,“ segir Hjördís. „Það eru kannski gamlir rammar og viðmið sem þarf samt að skoða og breyta. Mér finnst vanta framsækna græna sjóði hérlendis, þró- un grænna skuldabréfa eða annað fyrirkomulag.“

Náttúrukapítalismi verðlaunar sjálfbærar lausnir

Áætlaður stofnkostnaður fyrsta klasans nemur einhverjum 800 milljónum króna, en Hjördís gerir ráð fyrir að árleg velta fyrirtækisins verði eitthvað í kringum 400- 600 milljónir króna. Hjördís byggir hugmyndirnar að baki fyrirtækinu á hugtakinu náttúru-kapítalismi. Paul Hawken, höfundur bókarinnar „Natural Capitalism“ hafði það um BioDomes-verkefnið að segja að það væri „vel ígrundað, mikilvægt og aðdáunarvert“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.