Bjarni Benediktsson, flutti í kvöld fyrstu stefnuræðu sína á Alþingi sem forsætisráðherra. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á framfarir í efnahagsmálum, heilbrigðismálum og menntamálum. Bjarni vottaði fjölskyldu Birnu Brjánsdóttur einnig samúð sína.

Bjarni lagði mikla áherslu á það að Íslendingar þyrftu að tvöfalda verðmæti útflutnings frá landinu á næstu fimmtán árum. Benti hann þá á að varasamt væri að treysta einungis á sjávarfang og málma, því þyrfti að leggja áherslu á hugvit og alþjóðamarkaðinn.

Til þess að ná slíkum árangri þarf þó að bæta menntun og því sagði Bjarni að ný ríkisstjórn myndi beita sér fyrir því að efla menntun á öllum stigum.