Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Nasdaq Iceland hafa gert með sér samkomulag sem miðar að því að undirbúa skráningu íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á First North markaðinn. Nýsköpunarsjóður er samstarfsaðili Nasdaq í þessu verkefni ásamt Logos, KPMG og Íslandsbanka.

Markmið samstarfsins er að fjölga tækifærum fyrir nýsköpunarfyrirtæki, ýmist til að afla fjármagns til vaxtar eða selja eignarhluti. Fyrirtæki sem huga að skráningu fara í gegnum árs langt skráningarferli sem hefst haustið 2018. Þar sækja forsvarsmenn þeirra mánaðarlega fyrirlestra og vinnustofur ásamt öðrum þátttakendum til þess að undirbúa mögulega skráningu á First North. Þátttaka er ekki háð fyrirætlunum um skráningu á First North, en fyrirtækin þurfa að vera opin fyrir þeim möguleika.

Nasdaq Iceland telur að undirbúningurinn  muni reynast fyrirtækjunum dýrmæt fjárfesting í formi reynslu og þekkingar, hvort sem hún leiðir til skráningar eða ekki. Haldnir verða fyrirlestrar og vinnustofur um einstaka þætti í rekstrinum og er ráðgert að Nasdaq, samstarfsaðilar og gestafyrirlesarar sjái um fyrirlestra og vinnustofur.

Um mitt ár 2019 er gert ráð fyrir að fyrirtækin verði búin að gera úttekt á eigin rekstri og framkvæma þær breytingar sem við á fyrir skráningu á First North.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, fagnar samstarfinu við Nasdaq Iceland.

„Samstarfið við Nasdaq Iceland fjölgar þeim tækifærum sem íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum gefst til að leita fjármögnunar. Með skráningu á First North opnast gluggi til Norðurlandanna með tilheyrandi möguleikum á fjármögnun og framtíðarvexti. First North er tilvalinn markaður fyrir  óskráð félög sem eru komin skemur á veg en þau sem sækja um fulla skráningu í Kauphöll,“ segir Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.