Nýráðinn framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar, Haraldur Bergsson, er nánast alinn upp í byggingavörugeiranum.

„Pabbi átti hlut í byggingavöruverslun sem hét Metro og var í Hallarmúlanum, en þar byrjaði ég að umgangast byggingavörur, en svo þegar hann selur hana þá fer ég að starfa hjá BYKO þar sem ég byrjaði á gólfinu með skóla en þar var ég í átta ár,“ segir Haraldur sem tók svo við stjórn verslana þegar námi lauk og vann sig síðan þar upp.

Eftir stutta viðkomu hjá Bauhaus tók hann síðan við sem framkvæmdastjóri hjá Sævari Karli og samhliða því fataversluninni Next en nú er hann spenntur fyrir því að starfa fyrir Múrbúðina við hlið Baldurs Björnssonar stofnanda sem áfram verður fyrirtækinu innan handar.

„Það kom mér reyndar nokkuð á óvart hvað Múrbúðin er byggð á sterkri grunnhugmynd, og hvað hún býður upp á breitt vöruúrval. Þarna er miklu, miklu meira en bara múrefni á boðstólnum, eins og hreinlætistæki, verkfæri, alls kyns heimilisvörur og svo er hún mjög sterk í málningu og fleiru,“ segir Haraldur.

Hann játar því að lítil yfirbygging hjálpi til við að halda í orðsporið um að verslunin sé með góð verð þótt hún sé í samkeppni við mun stærri verslanakeðjur.

„Svo hefur líka Baldur, forveri minn í starfinu, unnið ákveðið brautryðjendastarf en hann hefur mikið keypt inn milliliðalaust og flytur það inn á hagkvæman hátt.

Hann er ekki flytja neitt loft inn til landsins heldur nýtir hann gámana í drasl, þannig að þeir séu algerlega fullir. Þetta hvort tveggja hefur skilað því að innkaupin hafa verið hagstæð sem leiðir til þess að fyrirtækið hefur getað boðið hagstæð verð."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .