Arion banki hyggst ganga að veðum sínum í þrotabú United Silicon, koma eignunum í söluferli og freista þess að koma verksmiðjunni aftur í gang að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær óskaði stjórn United Silicon, kísilverksmiðjunnar í Helguvík á Reykjanesi, eftir gjalþrotaskiptum á búinu. Hafði Arion banki, sem þegar hafði gengið að veðum í félaginu lagt félaginu til fjármagn á greiðslustöðvunartímabilinu og kostað rannsóknir sem sýndu að félagið þyrfti um 25 milljónir evra til að klára verksmiðjuna og koma henni í gang.

Það nemur um 3.156 milljónum króna en líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá kostaði rekstur félagsins Arion banka um 200 milljónir á mánuði meðan á endurskipulagningunni gekk.

Er stefnt að því að stofna nýtt félag um eignir United Silicon sem Arion banki gengur út frá að eignast, en um átta kaupendur hafa lýst áhuga á félaginu. Býst bankinn við að ef þeir fái ekki tilboð sem sé viðunandi verði verksmiðjunni komið í gang áður en salan fer fram.