„Framleiðslan hefur gengið vel þrátt fyrir fáeina byrjunarörðugleika. Fyrstu afurðirnar fóru til Bandaríkjanna og Frakklands og hafa mælst mjög vel fyrir,“sagði Rúnar Sigurvinsson, framkvæmdastjóri Marmetis, í samtali við Fiskifréttir.

Örn Erlingsson útgerðarmaður er aðaleigandi Marmetis. Byggt var nýtt 2.500 fermetra hús í Sandgerði undir starfsemi Marmetis og keyptar nýjar vinnslulínur og búnaður af fullkomnustu gerð. Heildarfjárfesting við verkið er rúmar 600 milljónir króna.

Rúnar segir að reiknað væri með því að framleiðslan færi fljótlega í 5 þúsund tonn á ári af hágæða vöru. Fjöldi starfa yrði í kringum 40. Hráefnið kæmi af dragnótabátnum Erni KE, sem gæti skilað um þúsund tonnum á ári, en einnig yrði keypt hráefni af fiskmörkuðum og bátum sem landa í beinum viðskiptum.

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum, sem fylgja með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.