Ólöf Nordal innanríkisráðherra lagði nýverið fram frumvarp sitt um breytingar á vopnalögum með það að markmiði að sporna gegn því að hægt sé að framleiða ólöglegar sprengjur. Frá þessu er greint á vef ruv.is í dag. Gangi frumvarpið eftir verður gerð heimatilbúinna sprengja bönnuð hérlendis.

Frumvarpið er til komið vegna reglugerðar Evrópusambandsins frá 2013 um takmarkanir á efnum og efnablöndum sem hægt er að nota til að framleiða ólögleg sprengiefni. Að auki er kveðið á um eftirlit með slíkum efnum og skráningu þeirra.

Í núverandi löggjöf eru engin ákvæði að finna sem banna einstaklingum að framleiða sprengjur heima hjá sér. Slík heimaframleiðsla sprengja er hins vegar bönnuð með reglugerðinni en breyta verður lögum svo hægt sé að uppfylla umrætt ákvæði. Einnig þurfti að setja ákvæði í lög um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við eftirlit með efnunum.