Að mati Viðskiptaráðs Íslands þá er nýleg úttekt Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á skatt- og bótakefinu á Íslandi áfellisdómur yfir húsnæðisstefnu stjórnvalda.

Fram kemur í úttekt AGS að stuðningur stjórnvalda vegna húsnæðismála sé flókinn, hvetji til of hárrar skuldsetningar og umframeyðslu heimila. Þá nái hann illa markmiðum sínum um hjálp við þá efnaminni og gagnast fyrst og fremst húsnæðiseigendum en ekki leigjendum.

Vaxtabætur enda að þremur fjórðu hlutum hjá tekjuhærri heimilum

Vaxtabætur ríkissjóðs fá falleinkun hjá AGS. Ekki aðeins eru bæturnar sagðar gríðarlega flóknar, heldur hvetja þær einnig til of mikillar skuldsetningar. Í flestum tilfellum muni bæturnar ekki gera einstaklingum mögulegt að koma þaki yfir höfuðið, heldur er frekar að kaupa stærra húsnæði heldur en ella. Bæturnar hafi að öllum líkindum áhrif til hækkunar húsnæðisverðs, sérstaklega á smærri íbúðum. Í skýrslu AGS kemur einnig fram að bæturnar endi að þremur fjórðu hlutum hjá tekjuhærri heimilum.

Þrjú ólík stuðningskrefi gera árangur óljósan

Stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að halda úti þrjú ólík stuðningskerfi sem hafa öll sama markmið, þ.e. að tryggja efnaminni fjölskyldum húsnæði. Þau kerfi eru vaxtabótakerfið, úsaleigubótum og húsnæðislán í gegnum Íbúðalánasjóð. Að mati AGS gerir þetta árangur framangreindra stuðningskerfa óljósan og skapar samhliða meiri raskanir á húsnæðismarkaði en ef eitt heildstætt kerfi væri til staðar.

AGS hvetur stjórnvöld til að afnema alfarið útgjaldatengdar húsnæðisbætur og afnema vaxtabætur smám saman á næstu árum. Í stað þess ætti að taka upp almennan fjárhagsstuðning sem einskorðast við efnaminni heimili.

Nýtt frumvarp mun líklega hækka leiguverð

Viðskiptaráð bendir á að nýtt frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur gangi gegn ráðleggingum AGS. Einnig er bent á ummæli  fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið en þar segir:

„Við þessar aðstæður eru allar líkur á að stóraukinn ríkisstuðningur í formi niðurgreiddrar leigu muni fljótlega leiða til hækkunar á leiguverði. Þannig má leiða líkur að því að þessi aukni húsnæðisstuðningur muni skila ábata í meiri mæli til leigusala en til leigjenda og að hætt verði við því að staða leigjenda batni ekki að því marki sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, a.m.k. ekki til skemmri tíma litið.“