Kópavogsbær hefur undirritað samkomulag um uppbyggingu íbúða í Smáranum, nýju hverfi sunnan Smáralindar. Í samkomulaginu sem bæjarfélagið gerði við Smárabyggð ehf. og Reginn fasteignafélag er gert ráð fyrir að reisa 620 íbúðir á svæðinu í 15 húsum.

Unnið  er að breytingu á aðalskipulagi svæðisins til að fjölga íbúðum en áður hafði verið gert ráð fyrir 500 íbúðum. Ákveðið var að fjölga íbúðunum í samræmi við tillögur húsnæðisnefndar vegna aukinnar eftirspurnar eftir minni og ódýrari íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að framkvæmdir hefjist um áramótin og að uppbygging á svæðinu ljúki innan átta ára.

Meðfylgjandi mynd er tekin á reitnum sem fyrirhuguð uppbygging verður við undirritun samkomulagsins í gær.