Hugbúnaðarfyrirtækið Godo hefur kynnt nýja lausn fyrir gististaði og ferðaskrifstofur. Hugbúnaðurinn ber heitið Travia sem er eins konar markaðstorg þar sem ferðaskrifstofur geta tengst beint við gististaði.

,,Með Travia er verið að sjálfvirknivæða gamla leið til þess að bóka hótel fyrir ferðaskrifstofur. Leiðin í dag er sú að ferðaskrifstofur hafa samband við mörg hótel til þess að finna laus herbergi fyrir ferðamenn. Oft þurfa ferðaskrifstofur að bíða í allt að 48 klukkustundir eftir svari hvort það sé laust eða ekki, svo þarf að bíða í annað eins eftir því að fá staðfestingu á bókun á viðeigandi gististað, en Travia leysir þennan vanda," segir segir Haukur Birgisson, fjármála- og viðskiptastjóri Godo.

„Með Travia tengjum við saman ferðaskrifstofur og gististaði þannig að ferðaskrifstofur sjá laus herbergi á ákveðnum dagsetningum og geta því sent inn bókunarbeiðni eða bókað beint inn á laus herbergi hjá gististað án þess að þurfa að hafa samband í gegnum tölvupóst. Þetta sparar mjög mikinn tíma fyrir báða aðila.“

Fyrirtækið hefur verið starfrækt síðan 2013 og hefur vaxið mjög mikið síðastliðin ár. Godo er nú orðið eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi í ferðaþjónustu.

,,Með Travia getur gististaðurinn tekið á móti bókunum frá ferðaskrifstofum allann sólarhringinn þar sem það þarf í raun og veru ekki starfsmann til þess að svara spurningum um framboð gistirýma því ferðaskrifstofan hefur þetta allt fyrir framan sig hverju sinni. Eftir að ferðaskrifstofa bókar, berst bókunin beint inn í hótelkerfi gististaðarins, með öllum tilheyrandi upplýsingum. Að auki verður gististaðurinn sýnilegri á markaðstorginu og getur því aukið söluna í gegnum fleiri ferðaskrifstofur," segir Haukur ennfremur.