*

fimmtudagur, 21. júní 2018
Innlent 16. júlí 2017 14:05

Nýtt tímabil hafið

Helgi Bjarnason er nýr forstjóri Vátryggingafélags Íslands. Hann hefur verið viðloðandi tryggingabransann í tuttugu ár.

Snorri Páll Gunnarsson
Eva Björk Ægisdóttir

Helgi Bjarnason er nýr forstjóri Vátryggingafélags Íslands hf. (VÍS). Félagið fagnar hundrað ára rekstrarsögu í ár og segir Helgi að nú sé nýtt tímabil hafið í sögu þess. Í ráðningarferli sínu segist Helgi hafa mætt einhuga stjórn sem hefur það markmið að efla félagið og telur hann að óróleikinn tengdur stjórn félagsins sé yfirstaðinn. Helgi segir umbætur og breytingar vera kjarnann í árangri og rekstri góðs félags, og að ávallt sé mikilvægt að horfa til heildarmyndarinnar. Framundan séu ýmis verkefni, stór og smá, svo sem lækkun á samsettu hlutfalli og innleiðing tæknibreytinga til að sinna ákalli viðskiptavina um rafræna þjónustu.

„Minn bakgrunnur og DNA er stærðfræði. Ég byrjaði í verkfræði í Háskóla Íslands eftir menntaskólann en skipti eftir fyrstu önnina yfir í stærðfræðina. Að námi loknu kenndi ég svo stærðfræði við Tækniskólann í eitt ár en tók síð­an næstum því handahófskennda ákvörðun um að fara í meistaranám í tryggingastærðfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn. Tryggingastærðfræðin fannst mér skemmtilegt og praktískt nám og tíminn í Kaupmannahöfn var frábær. Þegar ég var að skrifa lokaverkefnið fékk ég símtal frá forstjóra Alþjóðalíftryggingafélagsins sem ég hafði aldrei hitt og var ráðinn til félagsins í þessu 15 mínútna símtali. Þar hóf ég störf að námi loknu árið 1997 ásamt því að vinna hjá Íslenskri endurtryggingu. Alþjóðalíftryggingafélagið var lítið félag þar sem allir gengu í öll verk. Ég bar þar ábyrgð á tryggingastærðfræðinni og iðgjaldaútreikningum en kom þó að öllu sem sneri að tryggingarekstrinum, svo sem tjónum, tjónsuppgjörum, skilmálum og bókhaldi, svo dæmi séu nefnd. Þetta var gríðarlega lærdómsríkur tími.

Árið 2006 tók ég við starfi aðstoð­ arforstjóra hjá Sjóvá auk þess sem ég varð framkvæmdastjóri líftryggingafélagsins. Tíminn hjá Sjóvá var að sama skapi mjög lærdómsríkur þar sem ég kynntist vel einstökum tryggingagreinum.

Fyrir um sjö árum var komið að öðrum kaflaskilum en þá var ég ráð­inn til Arion banka. Fyrst um sinn var ég framkvæmdastjóri rekstrarsviðs bankans en ári síðar tók ég við stöðu framkvæmdastjóra við­skiptabankasviðs. Þar reyndist bakgrunnur minn mér vel enda er í raun margt líkt í starfsemi banka og tryggingafélaga. Fyrst og fremst snerist þó starfið um yfirsýn og samskipti.

Vafalaust hefur stjórnendareynsla mín úr bankanum vegið þungt þegar ég var svo ráðinn í starf forstjóra VÍS, miklu fremur en skólasetan. Á meðan ég starfaði hjá Arion banka var ég einnig viðloðandi tryggingar í gegnum stjórnarsetu mína í OKKAR líftryggingum og síðan Verði tryggingum hf. eftir að bankinn festi kaup á félaginu.“

Helgi hóf störf sem forstjóri VÍS í byrjun mánaðarins en þess má geta að fyrsta og eina starfið sem hann hefur nokkurn tímann sótt um var staða tryggingastærðfræð­ ings í sumarstarfi hjá VÍS. ,,Ég fékk fund með þáverandi forstjóra en hef greinilega ekki komið nægilega vel fyrir því ég fékk ekki starfið. Það er svolítið skemmtileg tilviljun að ég setjist nú í forstjórastól hér um tveimur áratugum síðar.“

Hvað kom til að þú heillaðist af tryggingabransanum?

„Tryggingabransinn er ofboðslega lifandi og maður veit aldrei hvað bíður manns í upphafi nýs vinnudags. Tjón gera ekki boð á undan sér en það er okkar hlutverk að standa við bakið á fólki þegar þau verða. Þótt horft sé í meðaltöl, tjónatíðni og fleira í rekstrinum þá er hvert og eitt tjón einstakt fyrir þann sem verður fyrir því.“

VÍS er stærsta tryggingafélag landsins með um 35 þúsund útgreidd tjón á ári en félagið greiðir á annan milljarð króna í tjónabætur í hverjum mánuði. ,,Það gefur því augaleið að það er mikilvægt að halda vel á spilunum í okkar rekstri.“

Einhuga stjórn 

Forveri þinn hjá VÍS var með viðskiptalegan bakgrunn en þú ert með tryggingastærðfræðilegan bakgrunn. Þýðir þetta að þú munir aðallega sinna vátryggingastarfsemi VÍS?

„Kjarnarekstur fyrirtækisins, bæði tryggingareksturinn og fjárfestingar, er á ábyrgð forstjóra. Fjárfestingar eru alveg jafn mikið hluti af mínu starfi og tryggingarnar, enda þrífst hvorugt án hins. Ég trúi því að þekking mín og bakgrunnur úr tryggingastærðfræði sem og reynsla síðustu sjö ára í mjög krefjandi umhverfi í fjármálageiranum geri mér kleift að efla félagið enn frekar.

Í aðdraganda ráðningar minnar hitti ég stjórn VÍS þar sem meðal annars var farið yfir ábyrgðarsvið forstjóra og verkaskiptingu milli stjórnar og forstjóra. Ábyrgðarsvið­ið er skýrt og um það eru allir sammála: það er mitt hlutverk að sjá til þess að félagið skili góðum árangri í bæði í tryggingum og fjárfestingum. Ég sé ýmis tækifæri til þess og er mjög spenntur að hefjast handa.“

Hvaða tækifæri eru það sem þú sérð í tryggingum og fjárfestingum?

„Það verða alltaf breytingar og nýjar áherslur þegar nýr aðili kemur inn. Almennt trúi ég því að umbætur og breytingar séu kjarninn í rekstri góðs félags og forsenda árangurs. Félög verða að aðlagast, breytast og hlusta á þarfir og ákall viðskiptavina ætli þau sér að vera samkeppnishæf. Til þess að það sé hægt verður maður stöðugt að vera á tánum. Ég veit að umbótastarf hefur verið í góðum farvegi hjá VÍS og ég hlakka til að vinna áfram á þeirri braut enda þekki ég vel mikilvægi umbóta úr mínu fyrra starfi.

Við ætlum okkur að lækka samsetta hlutfallið og ná því niður fyrir 100%. Um leið viljum við innleiða tæknibreytingar sem gerir rekstur félagsins skilvirkari og þjónustuna betri. Þetta eru þó bara dæmi um þau mörgu verkefni sem framundan eru. Ég var ekki ráðinn í eitthvert eitt verkefni frekar en annað, heldur til að byggja ofan á það góða starf sem unnið hefur verið í félaginu og keyra það áfram á þeirri braut. Ég mun setja mig inn í starfsemi félagsins á næstu vikum og horfa á heildarmyndina. Ég veit að við munum vinna marga sigra á komandi misserum, stóra sem smáa.“

Það hefur nokkuð verið fjallað um óróa innan stjórnar VÍS undanfarið, sem endurspeglast í breytingum innan stjórnarinnar og í forstjóraskiptum. Truflar það þig eitthvað?

„Í ráðningarferlinu mætti mér einhuga stjórn sem hefur það eina markmið að efla þetta félag. Umræðan sem þú vísar í truflar mig því ekki, enda lít ég svo á að þau mál séu nú afstaðin og nýtt tímabil í 100 ára sögu VÍS sé hafið.“

Í félagi með fjármálaráðherra 

Helgi er gjaldkeri í Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT). Í félaginu eru níu fullgildir meðlimir og af þeim starfa þrír hjá VÍS. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, er einnig meðlimur og er endurskoðandi félagsins. Tilgangur félagsins er að stuðla að framgangi þeirra mála sem varða tryggingastærðfræðinga og starfssvið þeirra hér á landi. Meðal annars er tilgangur félagsins að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna, vinna að samræmingu á vinnubrögðum félaga, stuðla að traustum og ábyrgum vinnubrögðum á sviði tryggingastærðfræði, vinna að kynningu á starfssviði félaga, vera í forsvari fyrir félagsmenn sem heild á opinberum vettvangi, gæta hagsmuna félagsmanna og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði tryggingastærðfræði.

Ákall um rafræna þjónustu 

Íslensku tryggingafélögin eru með há samsett hlutföll og umfangsmikla fjárfestingarstarfsemi í norrænum samanburði. Hvað útskýrir þá stöðu?

„Það getur verið skondið að bera okkur saman við erlenda markaði. Þá kemur svo skýrt í ljós hversu lítil við erum hér á þessari eyju. Ég man til dæmis eftir því að hafa skoð­ að tryggingafélag í Hollandi þegar ég var hjá Sjóvá sem var með álíka veltu. Það kom svo í ljós að það bauð einungis upp á hundatryggingar. Smæð okkar markaðar hefur vissulega áhrif á reksturinn en hún má þó aldrei verða afsökun fyrir ósjálfbærum tryggingarekstri. Hagsveiflan hefur líka haft sín áhrif, því það er staðreynd að í góðæri fjölgar tjónum og það tekur iðgjöld ákveðinn tíma að ná þeim breytingum. 

Sögulega hefur verðbólga verið mikil og vaxtastig hátt á Íslandi. Tryggingafélögin hafa þrátt fyrir þetta náð að skila viðunandi afkomu með hárri ávöxtun á eignum en um leið verið með tiltölulega hátt samsett hlutfall. Þetta umhverfi er að breytast og því þurfa tryggingafélög að ná niður samsetta hlutfallinu eigi þau að skila góðri rekstrarniðurstöðu. Tryggingareksturinn verður að standa undir sér þar sem sveiflur geta verið miklar í fjárfestingastarfseminni.“

Tryggingafélögin hafa náð góðum árangri í að lækka samsettu hlutföll sín eftir hrun. Í dag eru þau í kringum 100%. Hvernig má halda áfram að ná afkomu vátryggingareksturs réttu megin við núllið?

„Þumalputtareglan er að tjón eru 80% þessa hlutfalls og rekstrarkostnaður 20%. Markmiðið er að iðgjöldin endurspegli tjón og því gætu einhverjir haldið að einfaldast væri að hækka bara iðgjöldin. Í samkeppnisumhverfi fleytir slík hugsun manni skammt. Við þurfum að huga að öllum tækifærum til að ná settu markmiði, aldrei missa sjónar á kostnaðinum, velja rétta áhættu, áhættudreifingu og ekki síst huga að forvörnum þar sem VÍS hefur verið í fararbroddi. Við verðum að horfa á stóru myndina, en okkar bíður sannarlega það verkefni að laga þetta hlutfall. “

Hvernig hefur tryggingabransinn verið að breytast undanfarin ár?

„Tryggingar sem slíkar hafa í eðli sínu breyst lítið þó að tækifæri til vöruþróunar séu klárlega til staðar. Það sem hins vegar hefur breyst á þessum markaði líkt og öðrum er að viðskiptavinir kalla í meiri mæli eftir rafrænum lausnum. Fólk vill geta stundað viðskipti og átt samskipti í gegnum netið og/eða síma í stað þess að mæta á næstu þjónustuskrifstofu.

Eðli okkar starfsemi er að vera í samskiptum við fólk á erfiðum tímum í lífi þess þegar það hefur orð­ið fyrir tjóni, slysum og/eða veikindum. Þá ríður á að þjónustan sé fyrsta flokks. VÍS hefur staðið sig vel í þessum efnum en við teljum að alltaf sé rými til að gera betur. Um 90% viðskiptavina okkar sem hafa lent í tjónum hafa verið ánægðir með úrvinnslu sinna mála. Til að viðhalda ánægju viðskiptavina mun verða enn mikilvægara í framtíðinni að bjóða þeim upp á valkosti í þjónusturásum sem hentar hverjum og einum. Það er því mikilvægt að huga vel að framþróun á þessu sviði um leið og við einbeitum okkur að því að veita góða þjónustu. Þetta er eitt af því sem ég lagði mikla áherslu á í Arion banka, meðal annars í verkefni undir heitinu stafræn framtíð, sem hefur skilað sér í betri þjónustu og einfaldara viðmóti fyrir viðskiptavini.

Þar liggja tækifærin og ég efast ekki um að reynsla mín frá Arion banka muni reynast vel í þeirri vegferð.“

Þannig að það verður lögð áhersla á að þróa þjónustuframboð VÍS í samræmi við þær öru tæknibreytingar sem eru að eiga sér stað?

„VÍS hefur fjárfest í tölvukerfi frá TIA Technology sem er stöðluð heildarlausn fyrir tryggingafélög. Vinna við að skipta út gömlum tölvukerfum hefur staðið yfir en nýja kerfið kemur í stað rúmlega 15 kerfa. Flest þeirra eru heimasmíðuð og jafnvel á aldur við mig. Þetta innviðaverkefni mun gera okkur kleift að koma betur til móts við ákall viðskiptavina um rafræna þjónustu og aukna sjálfvirkni. Þetta kerfi er notað af stórum tryggingafélögum erlendis og mun VÍS njóta ávinnings af framþróun á kerfinu með stórum hópi notenda. Það er búið að leggja mikla vinnu í þetta verkefni. Kerfið er komið í notkun og við erum að flytja viðskiptavini úr eldri kerfum yfir í það nýja. Ég held að það séu ómæld tækifæri í tæknibreytingum í sambandi við tryggingar og það er spennandi. Við þurfum alltaf að vera vakandi. Þessi heimur er margbreytilegur og hlutirnir eru fljótir að breytast.“

Góðar horfur á markaði 

Á árinu hefur VÍS keypt tæplega 25% hlut í Kviku banka. Hvaða tilgangi þjónar sú fjárfesting? Er þetta meira en bara áhættudreifing?

„Ég held að sú fjárfesting muni reynast félaginu farsæl. Staðan í dag er ekki flókin. Þetta er fjárfesting sem liggur í fjárfestingarbók félagsins og það er okkar ábyrgð að vinna úr henni líkt og öðrum fjárfestingum félagsins.“

Hvernig metur þú horfurnar á tryggingarmarkaði? Eru einhverjar sérstakar áhættur til staðar?

„Ég tel horfurnar góðar og að mikil tækifæri séu á markaðnum. VÍS er gríðarlega öflugt tryggingafélag með mestu markaðshlutdeildina og 100 ára sögu í íslensku samfélagi. Rætur félagsins liggja aftur til þess þegar Brunabótafélagið var stofnað árið 1917. Innviðir félagsins eru sterkir og ég er sannfærður um að við munum sækja þann árangur sem ég tel félagið eiga inni. Markmiðið er að tryggja góðan og heilbrigðan rekstur og halda áfram að styðja við bakið á þeim fjölmörgu viðskiptavinum sem þurfa á stuðningi okkar að halda.“

Vegna mistaka birtist aðeins hluti viðtalsins í þarsíðasta blaði Viðskiptablaðsins. Hér, sem og í síðasta tölublaði, birtist viðtalið í heild sinni.

Stikkorð: VÍS Helgi Bjarnason tryggingar tímabil