Áherslumunur virðist vera á milli stórra hluthafa í VÍS um hvort félagið eigi að leggja áherslu á vátryggingastarfsemi sína eða hvort leggja eigi aukna áherslu á fjárfestingarstarfsemi félagsins.

Hugnast það síðarnefnda forystumönnum lífeyrissjóða ekki að því er Morgunblaðið greinir frá, og kæmi því til greina að krafist yrði nýs hluthafafundar og stjórnarkjörs í félaginu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um urðu átök í stjórninni milli þeirrar Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, sem varð formaður eftir síðasta aðalfund og Herdísar Drafnar Fjeldsted, fyrrverandi formanns sem sagði sig úr stjórninni í kjölfarið.

Þó sjóðirnir vilji síður frekari átök sem gæti haft neikvæð áhrif á hlutabréfaverð virðist meiningarmunurinn um stefnu félagsins kristallast í þessum átökum.

Eiga að minnsta kosti 35% í félaginu

Hafði Svanhildur leitað stuðnings til formennsku meðal sjóðanna en einhverjir þeirra létu hana vita að þeir myndu áfram styðja Herdísi til formanns.

Einnig kæmi til greina meðal lífeyrissjóðanna að losa hlut sinn í félaginu smátt og smátt, en þeir eru áberandi meðal 20 stærstu hluthafa félagsins.

Á Lífeyrissjóður verslunarmanna tæp 10%, Gildi 5,5%, A-deild LSR með rúm 5%, Frjálsi lífeyrissjóðurinn með rúm 4% en samtals eiga lífeyrissjóðirnir meðal 20 stærstu hluthafana 35% í félaginu.