Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur útlistað aðgerðir sem embættismönnum og stofnunum er ætlað að grípa til vegna hvalveiða Íslendinga. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að forsetinn hafi skrifað undir minnisblað þessa efnis í gær. Ekki er lagt til að viðskiptaþvingunum verði beitt. Engu að síður hvetur hann háttsetta embættismenn frá Bandaríkjunum til að meta hvort heimsóknir hingað til lands séu viðeigandi í ljósi veiða Íslendinga á langreyði og verslunar þeirra með langreyðarafurðir.

Í minnisblaðinu segir m.a. að hann deili áhyggjum Sally Jewell, umhverfisráðherra Bandaríkjanna, af viðskiptum Íslendinga með hvalaafurðir. Embættismenn eigi að koma athugasemdum á framfæri við íslensk stjórnvöld og hvetji þau til að þróa önnur tækifæri sem tengjast hvölum, s.s. hvalaskoðun og rannsóknarstarf í þágu hvalaverndar í stað hvalveiða.