*

laugardagur, 19. janúar 2019
Innlent 2. apríl 2014 07:33

Obama beitir sér gegn hvalveiðum Íslendinga

Bandaríkjaforseti skrifaði í gær undir minnisblað þar sem útlistaðar eru aðgerðir vegna hvalveiða Íslendinga.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur útlistað aðgerðir sem embættismönnum og stofnunum er ætlað að grípa til vegna hvalveiða Íslendinga. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að forsetinn hafi skrifað undir minnisblað þessa efnis í gær. Ekki er lagt til að viðskiptaþvingunum verði beitt. Engu að síður hvetur hann háttsetta embættismenn frá Bandaríkjunum til að meta hvort heimsóknir hingað til lands séu viðeigandi í ljósi veiða Íslendinga á langreyði og verslunar þeirra með langreyðarafurðir.

Í minnisblaðinu segir m.a. að hann deili áhyggjum Sally Jewell, umhverfisráðherra Bandaríkjanna, af viðskiptum Íslendinga með hvalaafurðir. Embættismenn eigi að koma athugasemdum á framfæri við íslensk stjórnvöld og hvetji þau til að þróa önnur tækifæri sem tengjast hvölum, s.s. hvalaskoðun og rannsóknarstarf í þágu hvalaverndar í stað hvalveiða.

Stikkorð: Barack Obama Hvalveiðar