Barack Obama, næsti forseti Bandaríkjanna, sagði um leið og hann tilkynnti formlega um val sitt á Timothy Geithner í stöðu fjármálaráðherra, að Bandaríkin þurfi að grípa til frekari aðgerða í efnahagsmálum.

Lawrence Summers verður yfirmaður þjóðhagsnefndar Hvíta hússins og Christina Romer verður formaður nefndar efnahagsráðgjafa Obama.

Obama sagðist á blaðamannafundi hafa valið sér hóp leiðtoga með sér sem kæmu með ferskar hugmyndir.

„Jafnvel nú þegar við horfum fram á mikla efnahagslega örðugleika, vitum við að mikil tækifæri eru framundan - ef við bregðumst við af festu og röggsemi,“ sagði Obama. „Við þurfum á vítamínsprautu að halda sem mun koma efnahagskerfinu okkar aftur í form.“

Obama sagði forgangsverkefni að skapa 2,5 milljónir nýrra starfa. „Fjármálamarkaðir okkar eru undir miklu álagi. Við megum ekki vanmeta vandamálin sem fram undan eru, en við megum heldur ekki vanmeta getu okkar til að sigrast á þeim,“ sagði Obama.

Obama tekur við forsetaembættinu 20. janúar á næsta ári.

BBC greindi frá.