Ný könnun þjóðarpúls Gallups sýnir að fylgi íslensku stjórnmálaflokkanna breytist lítið milli mánaða. Rúmlega 29% þátttakenda segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til kosninga í dag en nær fjórðungur Vinstri græn og tæplega 11% Framsóknarflokkinn.

Ríflega 10% svarenda sögðust myndu kjósa Pírata og rösklega 8% Samfylkinguna og 6% Bjarta framtíð. Sama hlutfall segist myndi kjósa Viðreisn. Liðlega fimm prósent nefna aðra flokka, þar af nær 3% Flokk fólksins og liðlega 1% Dögun.

Um 10% tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og ríflega 8% svarenda sagðist myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Rúmlega 41% þeirra sem tóku afstöðu sögðust styðja ríkisstjórnina.

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. til 30. mars sl. en heildarúrtaksstærð var 5.798 og þátttökuhlutfall var 56,2%.