Sjálfkjörið verður í stjórn símans á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 16. mars næstkomandi, og verður stjórnin óbreytt frá síðasta aðalfundi.

Þeir sem gefið hafa kost á sér í stjórn eru þau:

Bertrand B. Kan , fjárfestir og hagfræðingur, en hann hefur setið í stjórn Símans frá 10. mars 2016. Bertrand situr einnig í stjórnum L1088 ehf. þar sem hann er stjórnarformaður og í Cellnex Telecom S.A. á Spáni. Tekið er fram í fréttatilkynningu að L1088 ehf sé fjárhagslega tengt Orra Haukssyni forstjóra Símans.

Birgir Sveinn Bjarnason , framkvæmdastjóri Íslensku umboðssölunnar hf og viðskiptafræðingur, hefur setið í stjórn Símans frá 10. mars 2016 líkt og Bertrand. Birgir er varamaður í stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna sem á 14,27% hlut í Símanum.

Heiðrún Emmilía Jónsdóttir , lögmaður, hefur setið í stjórn Símans frá 24. janúar árið 2013 en hún situr jafnframt í stjórnum Olíuverzlunar Íslands og Íslandsbanka og sem varamaður í stjórn lögmannafélags Íslands. Heiðrún á 110.121 hluti í Símanum sem eru að markaðsvirði þegar þetta er skrifað á rúmar 400 þúsund krónur.

Sigríður Hrólfsdóttir , ráðgjafi og viðskiptafræðingur, hefur setið í stjórn frá 2. júlí 2013 en hún hefur verið stjórnarformaður félagsins frá þeim tíma. Sigríður situr einnig sem stjórnarformaður í Eldey TLH ehf. sem og í stjórn Mílu ehf. Sigríður á jafnstóran hlut í Símanum og Heiðrún.

Stefán Árni Auðólfsson , lögmaður, hefur setið í stjórn Símans frá 2. júlí 2013 en hann situr jafnframt í eftirtöldum stjórnum: Egla hf., Hagar hf. LMB lögmenn slf., Gamli Byr eignarhaldsfélag ehf., auk þess að vera stjórnarformaður Hváll ehf. og varamaður í stjórn GGX ehf. Hann á jafnstóran hlut í Símanum og þær Heiðrún og Sigríður.