Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki héldu stýrivöxtum sínum - 4% á evrusvæðinu og 5,75% á Bretlandi - óbreyttum í gær. Samstaða ríkti á meðal stjórnarmanna evrópska seðlabankans um stýrivaxtaákvörðunina en hins vegar var eftir því tekið að orðin "mikla aðgætni" gagnvart verðbólguþrýstingi komu ekki fram í tilkynningu bankans sem Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri, las upp. Slíkt orðalag var notað við síðustu vaxtaákvörðun bankans og hefur iðulega verið talið gefa til kynna að von sé á stýrivaxtahækkun hjá bankanum. Trichet vildi ekki tjá sig um hverju það sætti að orðin hafi ekki komið fyrir í þetta sinn. "Það er undir fréttaskýrendum og markaðsaðilum að leggja mat á slíkt," sagði Trichet á fjölmiðlafundi í höfuðstöðvum bankans í Frankfurt í gær.

Ákvörðun Seðlabanka Evrópu og Englandsbanka kom fjármálaskýrendum ekki á óvart í ljósi þess að vaxandi áhyggjur eru á meðal fjárfesta um þá lausafjárþurrð sem ríkir á fjármagnsmörkuðum um þessar mundir. Þær áhyggjur endurspeglast ekki síst í þeirri staðreynd að vextir á skammtímalánum á millibankamarkaði í London (Libor) hafa hækkað mikið að undanförnu og eru allt að hundrað punktum hærri heldur en stýrivextir á evrusvæðinu og Bretlandi.

Evrópski seðlabankinn brást hins vegar við því slæma aðgengi sem er að lánsfé á mörkuðum með því að veita 42,4 milljörðum evra inn á peningamarkaði fyrir einn dag. Sú ákvörðun dró að einhverju marki úr áhyggjum fjárfesta, en helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu hækkuðu lítillega í viðskiptum í gær. Skiptar skoðanir eru á meðal fjárfesta um hvort seðlabankinn muni ráðast í stýrivaxtahækkun á árinu - en slíkt þótt næsta öruggt fyrir um mánuði síðan - og samkvæmt skoðanakönnun Dow Jones eru 31 hagfræðingur af 51 á því að vextir muni hækka um 25 punkta fyrir árslok.

Það sem kom greiningaraðilum einna mest á óvart varðandi stýrivaxtaákvörðun stjórnar Englandsbanka var sú ákvörðun að gefa samhliða út tilkynningu, en slíkt hefur að aðeins tvisvar áður verið gert síðastliðinn tíu ár þegar Englandsbanki ákveður peningamálastefnu sína. Í frétt Financial Times er haft eftir hagfræðingum að þeir búist ekki við því að bankinn muni hækka hjá sér vexti á árinu sökum þeirrar óvissu hversu mikil áhrif undirmálslánakrísan (e. subprime-mortages) mun hafa fyrir raunhagkerfið á Bretlandi.