Peningastefnunefnd Evrópska seðlabankans tilkynnti fyrr í dag að stýrivextir yrðu áfram 0% á evrusvæðinu en greindi jafnframt frá því að vextir yrðu ekki lækkaðir frekar.

Seðlabankinn stefnir að frekari skuldabréfakaupum til að örva hagvöxt á evrusvæðinu og til að færa verðbólgu á svæðinu að verðbólgumarkmiði seðlabankans um 2% verðbólgu.

Eins dags vextir á innlánum verða áfram neikvæðir um 0,4%.

Mario Draghi forseti Seðlabanka Evrópu sagði fyrir skömmu að verðbólguþrýstingur væri ekki nægilega mikill til að peningastefnunefndin myndi hverfa frá stefnu sinni.

Markaðsaðilar bíða nú eftir blaðamannafundi sem fer fram klukkan hálf eitt þar sem Draghi mun greina frá ástæðum vaxtaákvörðunarinnar.